27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

103. mál, hjónavígsla

Einar Arnórsson:

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er efnd á gömlu heiti 47. gr. stjórnarskrárinnar, er mælir svo fyrir, að enginn skuli nokkurs í missa af borgaralegum rjettindum fyrir sakir trúarbragða sinna. Jeg lít svo á, að ákvæði laga 19. febrúar 1886 fullnægi ekki anda stjórnarskrárinnar. Það er haft á mönnum að binda hjónabandið við trúarskoðanir, og þess vegna er rjett og skylt að greiða fyrir frv.

Eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gat um er svo að sjá, sem sumir misvitrir menn hafi skilið brtt. mína við þingsályktunartillögu okkar þm. V.-Sk. (G. Sv.) um hjúskaparslit o. fl. svo, að hún ætti að svæfa frv. Þótt jeg hafi orðað hana svona, ætlaðist jeg ekki til þess, en átti við það, að mörg önnur atriði varða stofnun hjónabands, en hjónavígslan ein, og brtt. mín er fram komin í því skyni, að ýms gömul og úrelt ákvæði um frændsemi, mægðir o. s. frv. verði afnumin og önnur betri og sæmri siðuðu landi komi í staðinn. Jeg vil því mæla hið besta með frv., hvort sem þingsályktunartill. verður samþykt eða ekki.