27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

103. mál, hjónavígsla

Pjetur Ottesen:

Jeg vil lýsa ánægju minni yfir því, að slíkt frv. sem þetta er fram komið, og finst mjer meira en tími til þess kominn að hrista af sjer ýmsar kreddur og löghelgaðar venjur frá eldgamalli tíð, sem ekki samrýmast frelsi manna í trúmálum og tíðarandanum yfirleitt. Það gleður mig mikið, að þessi breyting gengur einmitt í þá átt að losa um þau tengsli, er halda ríki og kirkju saman. Þau tengsli þarf að slíta sem allra fyrst í sundur með öllu. Það mál hefir nú um langt skeið verið ofarlega á baugi hjá þjóðinni, og er trauðla hugsanlegt, að það dragist mjög lengi úr þessu að hrinda því fram til sigurs. Enda er nú hægra um vik en áður var, þar eð sú breyting hefir verið gerð á stjórnarskránni, að skilja megi ríki og kirkju með einföldum lögum.

Viðvíkjandi 3. gr. frv. er það að segja, að jeg felli mig miður vel við þessa auglýsingu um hjónabandið, sem þar er gert ráð fyrir.

Jeg vildi helst, að henni væri alveg slept. Það er hvort sem er, að því er mjer finst, eingöngu formsatriði. Sýnir það best, að mönnum skuli vera gefinn kostur á að kaupa sig undan því með leyfisbrjefi.

Mjer finst aftur á móti ekkert á móti því, að mönnum væri þá gert það að skyldu að láta af mörkum þessa litlu upphæð, sem leyfisbrjefið hljóðar upp á, við svo hátíðlegt tækifæri sem hjónavígslan er.

En að vera að auglýsa þetta innan um þrotabús-, uppboðs-, fjárnáms- og sauðfjármarkaauglýsingar í Lögbirtingablaðinu um landið þvert og endilangt, það felli jeg mig ekki við. (E. A: Ekki að gleyma óskilafjenu). Já, og svo það. Jeg vonast til þess, að háttv. flm. þessa frv. (G..Sv.) og nefnd sú, er fær það til meðferðar, fallist á að breyta þessu ákvæði.

Jeg vil svo að lokum mæla hið besta með þessu frv. Með því er stigið spor í rjetta átt.