07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

103. mál, hjónavígsla

Frsm. (Einar Arnórsson):

Menn munu sjá það á málum, sem koma frá allsherjarnefnd, að henni kemur venjulega vel saman. Svo er enn í þessu máli; nefndin leggur til, að frv. nái fram að ganga.

Það var tekið fram á dögunum, út af þingsályktunartill., sem þá var á ferðinni, um stofnun og slit hjónabands, að sú væri ekki tilætlunin, að till. skyldi hamla framgangi þessa frv., því að það er alveg sjálfstætt og felur nær að eins í sjer formleg atriði eða hina ytri aðferð um það, hvernig hjón skuli gefin saman.

Aðalbreytingin, sem frv. fer fram á frá núgildandi lögum, er sú, að mönnum sje heimilt að snúa sjer til valdsmanns til þess að fá hjónavígslu, hverrar trúarjátningar sem eru og hvort sem menn eru í þjóðkirkjunni eða ekki. Nú er það svo, að valdsmenn mega eigi gefa hjón saman, nema annaðhvort eða bæði sjeu utan þjóðkirkjunnar. Þessi breyting bætir úr ójöfnuði, sem átt hefir sjer stað, og er í samræmi við það, sem tíðkast í flestum siðuðum löndum. Sumstaðar er raunar eingöngu valdsmönnum heimilt að gefa saman hjón, en háttv. flm. (G. ,Sv.) og nefndinni þótti rjettara að fara ekki lengra en svo, að heimila mönnum að velja, hvort þeir vildu heldur borgaralega eða kirkjulega vígslu.

Brtt., sem nefndin leggur til að gera, lúta ekki að aðalefni frv.

1. brtt. er við fyrirsögnina. Nefndin leit svo að rjett væri að skíra lögin eftir aðalefni þeirra, með því að um stofnun hjónabands er um fleiri atriði að ræða en hvernig vígslan fari fram.

2. brtt. er við 3. gr. Nefndinni þótti ekki vert að auglýsa hjónabandið í Lögbirtingablaðinu; hún feldi sig betur, við gömlu regluna í lögum 19. febr. 1886, og leggur til að breyta 3. gr. samkvæmt því.

3. brtt. við 4. gr, er gerð í samræmi við 2. brtt. og við gildandi rjett.

6. brtt. stafar líka af þessu atriði og er samskonar ákvæði sem í lögum 19. febr. 1886.

7. brtt. er að eins orðabreyting. Nefndinni þótti viðkunnanlegra að orða 1. málsgrein 7. gr. svo, með því að ekki er víst, að forstöðumenn safnaðanna sjeu jafnan prestar, en lög 3. mars 1904 tala um presta og löggilta forstöðumenn.

4.—5. brtt. eru orðabreytingar. 5. brtt. er komin fram af því, að nefndin telur ekki rjett að vitna til ákvæða reglugerðar 30. maí 1890. Þeirri reglugerð kann að verða breytt, og einnig mætti skilja svo greinina, sem hún löghelgaði reglugerðina.

Að svo mæltu vænti jeg góðra undirtekta háttv. þingdeildar undir frv. og brtt. nefndarinnar.