07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

103. mál, hjónavígsla

Gísli Sveinsson:

Jeg stend að eins upp til þess að láta í ljós gleði okkar flm. yfir því, að háttv. nefnd hefir fallist á frv. og telur það nauðsynlegt. Allar brtt. nefndarinnar eru óverulegar og hagga ekki efni frv., svo að jeg get sætt mig við þær. Jeg skal þó aðeins drepa á, hvað vakti fyrir mjer í þeim greinum, sem háttv. nefnd hefir lagt til að breyta.

Fyrirsögnina, stofnun hjónabands, valdi jeg sökum þess, að hjónavígsla táknar fremur klerklega athöfn, eins og orðið vígsla yfirleitt, og á því síður við um borgaralega athöfn. En vera má, að skoða megi þetta orð sem ákveðið orð með fastri merkingu. Mín skoðun er sú, að ekki beri að halda orðum, þegar breytt er skipulagi þeirra athafna, sem þau tákna, og fátítt ætla jeg það einnig að kalla veraldlegar athafnir vígslur. En ekkert kapp legg jeg á þetta.

2. brtt. er að eins tilhögunarbreyting og lýtur að birtingu hjónabandsins. Það er auðvitað alveg skoðunarmál, hvað heppilegast sje í þessu efni, en í fljótu bragði finst mjer eins heppilegt að birta þetta í Lögbirtingablaðinu og hin aðferðin. En vel get jeg þó felt mig við þetta.

Allar hinar brtt. standa í sambandi við þessa, alt að síðustu, 7. brtt., sem þó er í rauninni orðabreyting, skotið inn forstöðumönnum safnaða. Jeg hafði þetta í huga við samningu gr., en mjer þótti ekki taka því; flestir löggiltir forstöðumenn safnaða munu vera kallaðir prestar, og í annan stað er ef til vill ekki rjett að veita öðrum forstöðumönnum safnaða en þeim, sem samtímis eru prestar, þetta vald; prestarnir ættu, að öllum jafnaði, ef lærdóm hafa, að vera færari um það en hver og einn »forstöðumaður« safnaðar.

En öll þessi atriði eru skoðunaratriði, sem jeg læt mjer í litlu rúmi liggja.