07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

103. mál, hjónavígsla

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það eru að eins 2 atriði, sem jeg vil gera athugasemdir við, hjá háttv. flm. (G. Sv.).

Það mun vera sögulega rjett hjá honum (G. Sv.), að vígsla eða ordinatio táknar í upphafi kirkjulega athöfn, enda er hjónabandið í kaþólskum sið talið sacramentum, svo að samkvæmt sögulegum kirkjurjetti mun hann (G. Sv.) hafa rjett að mæla. En orðið að »vígja« er ekki eingöngu notað í kirkjumáli. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) minnir mig á það, að orðið er notað í ramheiðnu kvæði, sem að vísu er ort áður en kristni komst á hjer, sem sje Þrymskviðu. Þar stendur svo:

»Berit inn hamar

brúði at vígja«.

(G. Sv.: Þar er það einmitt helgiorð úr heiðnum sið). En það þarf ekki einu sinni að seilast svo langt til dæmanna; málvenjan hefir fært út kvíarnar, svo að alment mun nú sagt að vígja hjón borgaralega, í stað þess að gefa saman. Og allir þekkjum vjer orðið brúarvígslu, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) nú skaut fram, og engan veginn felur í sjer kirkjulega athöfn. En nefndinni er þetta atriði ekkert kappsmál, fremur en háttv. flm. (G. Sv.).

Hitt atriðið, sem jeg vildi minnast á, var um forstöðumenn safnaðanna. Jeg get bent á forstöðumann safnaðar, sem aldrei er kallaður prestur, sem sje forstöðumann aðventista. Mjer fanst og gægjast fram misskilningur hjá háttv. flm. (G. Sv.), er hann vildi að eins fela prestvígðum forstöðumönnum safnaða hjónavígsluna, auk þess sem hann víkur þar frá jafnrjettis-grundvallaratefnu

frv. síns. Ef söfnuður hefir fengið löggiltan forstöðumann, þá hefir ríkisvaldið viðurkent hann, en 13. gr. laga 19. febr. 1886 heimilar forstöðumönnum safnaða að framkvæma þau verk, sem prestar þjóðkirkjunnar mega gera, og þar undir fellur þá hjónavígsla. Að öðrum kosti yrði að breyta lögunum. En jeg sje enga ástæðu til þess að gera upp á milli forstöðumanna, sem eru vígðir, eða ekki, ef þeir að eins hafa fengið löggilding til þess að framkvæma verk, sem prestum eru ella ætluð.