24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

103. mál, hjónavígsla

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Hingað til hafa það verið lög innan þjóðkirkjunnar, að hjónaband sje ekki löglegt nema prestur vígði hjónin. En fyrir alllöngu hefir brytt á röddum í þá átt að leyfa borgaralegt hjónaband jafnhliða. Lagafrv. hafa komið fram um þetta á árunum 1894, 95 og 97. Tvisvar voru þau ekki útrædd, en einu sinni var neitað um staðfestingu á þeim. En jafnan hefir verið allharður ágreiningur um málið. Menn hafa bent á það annars vegar, að málið væri borgaralegs eðlis. Hins vegar hefir því verið haldið fram, að það mundi rýra helgi hjónabandsins, ef engin kirkjuleg athöfn væri stofnun þess samfara. Hvorttveggja hefir nokkuð til síns máls. Hjónabandið er að sjálfsögðu borgaralegs eðlis; borgaralegur rjettur er því samfara, og borgaralegar skyldur eru við það bundnar. Hins vegar er hjúskapurinn og málefni hans á ýmsan hátt svo nálægt svæði siðferðis og trúarbragðanna, að eðlilegt mætti þykja, að kirkjunni þætti mikils um vert að hafa nokkur afskifti af honum.

Nú liggur hjer enn fyrir þetta frv., um að gera hvorttveggja stefnunni jafnhátt undir höfði, Og nefndin hefir, að öllu athuguðu, fallist á, að rjett sje að samþykkja það. Að vísu hefir málið legið að mestu í þagnargildi um hríð, og að vísu hafa engar háværar kröfur komið fram um það; jeg man t. d. ekki eftir neinum þingmálafundi, þar sem um þetta hefir verið rætt. En alt fyrir það mun þó víst, að hugur manna hefir nú meira snúist að þessu, og yfirleitt má búast við, að þessari breytingu verði vel tekið. Það er raunar ekki svo, sem jeg sje hjer fyrir kirkjunnar hönd að flytja skilnaðarkveðju til kirkjulegrar hjónavígslu; hún mun að sjálfsögðu enn verða aðallega notuð. En rjettindi til borgaralegrar vígslu hafa þegar verið veitt utan þjóðkirkju, og hefir þá verið óskað sama rjettar fyrir þá, sem í þjóðkirkjunni eru. Þessi rjettur utanþjóðkirkjumanna hefir haft áhrif á þjóðkirkjuna. Því að ekki hefir þurft annað en segja sig úr henni til þess að fá hann, og er kunnugt, að það hefir þó nokkuð verið notað. Er þetta einni ástæðu meira til þess að stíga sporið fult og heimila þetta án krókaleiða.

Jeg tel víst, að kirkjunnar mönnum verði kært, að hin þýðingarmikla stofnun hjónabandsins verði eftir sem áður sem mest tengd við kirkjulega athöfn. En jeg tel hitt jafnvíst, að þeir óski ekki lengur neina þvingun, en játi, að þessi rýmkun geti einnig haft sína þýðingu til nytsemdar. Það gæti

t. d. ef til vill orðið eitt ráð í áttina til þess, að minna yrði af ólögfullum samböndum, þegar greiður er aðgangur að þeirri vígslu, sem hver vill helst kjósa.

Jeg tel varla þörf á að fara fleirum orðum um niðurstöðu nefndarinnar, en vil leyfa mjer að ráða háttv. deild til að samþykkja frv., með þeim breytingum, sem nefndin hefir lagt til að á því verði gerðar. Jeg geri ekki ráð fyrir, að jeg þurfi að gera neina grein fyrir brtt. nefndarinnar. Það er að eins breyting á niðurröðun efnisins, sem oss þótti betur við eiga.