01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

103. mál, hjónavígsla

Sigurður Stefánsson:

Það er eins með þetta frv. eins og flest önnur á þessu þingi, að jeg hefi ekki getað fylgst með því frá byrjun. Mjer er því ókunnugt um þau drög, sem liggja til þess, að þetta frv. er fram komið, hvort það eru almennar óskir frá þjóðinni, eða þessi vanalega frumvarpa-frjósemi hjer á þinginu. Getur vel verið, að raddir hafi komið fram á þingmálafundum um að hreyfa þessu máli. En hafi engar raddir heyrst í þá átt, þá verð jeg að álíta, að lítil nauðsyn hafi borið til að koma með þetta frv. nú.

Breytingin, sem hjer er farið fram á frá gildandi lögum, er sú, að frv. veitir öllum jafnan rjett til borgaralegrar hjónavígslu, án tillits til þess, hvort þeir eru í þjóðkirkjunni eða utan hennar. Við það er í sjálfu sjer ekkert að athuga, ef svo væri að öðru leyti í garðinn búið, að hjónaefni yfirleitt sæju sjer fært að nota þetta frelsi. En er jeg les yfir frv., rek jeg mig á talsverða agnúa á því. Jeg get tekið það fram, að þetta frv., að forminu til, sviftir presta talsverðum tekjum. Jeg skal nú ekki fást um það. Við prestar erum orðnir ýmsu vanir af slíkum ráðstöfunum og eigum nú orðið hjer á þingi formælendur fáa. Jeg legg ekki heldur mikið upp úr þessu atriði, en rjettlátt er það ekki, að löggjafarvaldið svifti einstaka stjett embættismanna tekjum, án þess að bætur komi fyrir. En þegar jeg lít á þetta frv., þá er jeg ósköp hræddur um, að frelsisgjöfin verði meiri í orði en á borði. Í lögunum frá 1886 er utanþjóðkirkjumönnum veitt undanþága frá kirkjulegri vígslu. Niðurstaðan hefir orðið sú, að hjónavígslan hefir orðið miklu dýrari og að ýmsu leyti umsvifameiri fyrir þessa menn heldur en fyrir þjóðkirkjumenn. Um þetta er ekki mikið að fást. Jeg verð að álíta, að þeir, sem geta ekki notað kirkjulega vígslu af trúarlegum ástæðum, vilji fúslega leggja á sig þann kostnað, sem þeir verða að borga fram yfir þjóðkirkjumenn. En þegar þess er gætt, að nú er öllum leyft að nota borgaralega vígslu, þá þarf ekki lengur neitt trúaratriði til þess að nota hana í stað kirkjulegrar vígslu. Þá hefði um leið átt að sjá um það, að jafnhægur aðgangur væri að hvorutveggju. En svo er ekki. Eftir þessu frv. verður borgaraleg vígsla miklu dýrari en kirkjuleg. Hún verður svo dýr, að allur fjöldi hjónaefna mun ekki sjá sjer efnalega fært að nota hana. Það er því tekið með annari hendinni, sem gefið er með hinni. Þess vegna eru allar líkur til, að þessi lög verði ein af pappírslögunum, sem ungað er út á Alþ., með um kostnaði, við umr., prentun o. fl., en aldrei koma neinum að notum. Þetta frv. er einn fleygurinn, sem verið er að reka í þjóðkirkjulöggjöfina, ný bót á gamalt fat. Það er miklu nær að taka málið frá rótum heldur en að vera með þetta sífelda kák í kirkjulöggjöfinni.

Jeg skal nú finna orðum mínum stað um það, að dýrt yrði hjónaefnum að fá vígslu eftir þessum lögum. Að vísu má segja, að það, sem dýrleikann snertir, sje ekki neitt nýmæli í þessum lögum, þar sem það er til í eldri lögum. En flutningsmenn hafa sjálfsagt búist við, að þessi lög yrðu eitthvað notuð, og þá fyrst er hægt að nota þau, er hjónaefni sjá sjer það fært vegna kostnaðar. Fyrst og fremst er það ákvæði, að valdsmaður skuli geta stefnt hjónaefnunum til kaupstefnu hvert sem hann vill í lögsagnarumdæminu. Í lögunum um utanþjóðkirkjumenn er þetta svona. En þar er alt öðru máli að gegna þegar trúaratriði valda því, að menn nota sjer undanþáguna. Nú er hægt að gera ráð fyrir, að valdsmaður, sem gefa á saman hjón eftir nýju lögunum, vilji sem oftast stefna hjónaefnum heim til embættisbústaðar síns. En þá má búast við, að oft geti hjónaefni hreint ekki hlýtt stefnu valdsmannsins, nema með ærnum kostnaði. Það getur kostað ærna peninga að fara úr fjarlægum sveitum til bústaðar valdsmannsins. Nú má segja, að valdsmaður geti ákveðið brúðkaupsstefnu annarsstaðar, þar sem brúðhjónin eiga hægra með að mæta. En þá fylgir sá böggull skammrifi, að eftir gildandi lögum fá valdsmenn auðvitað ferðakostnað og dagpeninga, á meðan þeir eru á leiðinni, og þann kostnað verða hjónaefnin að borga. Þessi ferðakostnaður yfirvaldsins getur oft orðið margir tugir króna. Tökum t. d., að hjón norður á Melrakkasljettu eigi að sækja vígslu til sýslumannsins á Húsavík. Sú ferð gæti kostað marga tugi króna. Samkvæmt þessu frv., er einnig sjálft hjónavígslugjaldið, pússunartollurinn, hækkaður um helming frá því, sem nú er í lögum um utanþjóðkirkjumenn, eða úr 4 kr. upp í 8 kr.; það er líka nokkur kostnaðarauki. Þjóðkirkjuvígslan kostar 6 álnir, sem í vanalegu árferði er 3—4 kr. Þetta er sem sagt mjög mikill kostnaður, þegar alt kemur saman, ferðakostnaður hreppstjóra fyrir að festa upp auglýsingar, dagpeningar og ferðakostnaður sýslumanns o. fl.; alt verður að reikna með. Jeg er ekki að segja, að það sje óhjákvæmilegt fyrir brúðhjónin að hleypa sjer í þennan kostnað. Þau geta eftir sem áður notað kirkjulega vígslu. En til hvers er þá verið að setja þessi lög? Jeg sje ekkert við þau unnið, ef að því rekur, að þau verða svo sem ekkert notuð sökum kostnaðar. Þau verða þá dauður bókstafur. Það er alt annað, þó að menn vilji mikið á sig leggja af trúarlegum ástæðum.

Þá er eitt atriði í frv., sem jeg varla veit við hvað á. Í 6. gr. er svo fyrir mælt, að skýrslu þá, sem valdsmaður sendir sóknarpresti, skuli rita inn í gerðabók prestakallsins. Með minni embættisreynslu þekki jeg ekki þá bók. Jeg veit, að þetta er tekið upp úr lögunum frá 1886, en er ekkert betra fyrir það. Það er leitt að sjá »terminos« í lögum, sem ekki eru til í málinu, heldur eru einhver aðskotadýr, sem enginn kannast við.

Jeg verð að álíta, að engin þörf hafi verið á þessu frv. nú, og að það taki aftur með annari hendinni það, sem það þykist veita. Það ætlast til, að engum skuli meinað að nota borgaralega hjónavígslu, en svo er hún gerð svo dýr, að fyrirsjáanlegt er, að ekki muni nema sárfáir menn vilja nota hana. Hvað er þá unnið við þessi lög? Þau eru dauður bókstafur, pappírslög og ekkert annað. Borgaraleg vígsla getur kostað 70—80 kr. eftir þessu frv. Það dettur því engum í hug að nota hana, sem á annað borð tilheyra þjóðkirkjunni, heldur fara menn til prestsins eftir sem áður. Og til hvers eru þá lögin?