01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

103. mál, hjónavígsla

Gísli Sveinsson:

Það sjer á, að við höfum fengið kennimann í deildina, sem rennur blóðið til skyldunnar. Jeg kann því ekkert illa, þótt háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) rísi upp á 11. stundu, þar sem hann hefir ekki átt kost á því fyr. En það er algerlega á 11. stundu, því að frv. er nú búið að ganga í gegnum báðar deildir og er komið hingað aftur frá háttv. Ed. Háttv. þm. (S. St.) virðist leggja aðaláhersluna á það, að frv. þetta muni ekki geta komið að neinum notum, en gat þess þó — í svigum að vísu, en nokkuð áberandi samt — að það gæti svift presta nokkrum tekjum. Það er satt, að prestar geta mist einhvers í. Þeir eiga eftir þessu frv. ekki að fá gjöld, sem þeir hafa órjettilega upp borið, gjöld fyrir verk, sem þeir hafa alls ekki int af hendi. Og eftir reglum um kaupgjald er ekki rjett, að neinn fái borgun fyrir verk, sem annar leysir af hendi. Jeg býst því við, að einhverjum prestum þyki þetta ef til vill skerðing, varla á frelsi samt, heldur á einhverju öðru. Reyndar þurfa þeir nú ekki að óttast svo mjög tekjumissi, eftir þeirri niðurstöðu, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) komst að um framkvæmd laganna, að borgaraleg vígsla mundi verða svo dýr, að flestir mundu frá hverfa og leita til prestanna, eins og áður.

Háttv. þm. (S. St.) sagði nú öllum leyfilegt að láta vígja sig borgaralega. Þetta er auðvitað ekki rjett. Eins og hann hlýtur að vita er svo langt frá því, að til þess að geta fengið borgara lega vígslu verða menn að ganga úr þjóðkirkjunni. (E. A: Þetta er misskilningur á orðum. þm. (S. St.). Hann sagði, að það yrði öllum leyfilegt eftir þessu frv.). Ef hann hefir átt við það, þá er það alveg rjett, og það er tilgangur frv., að öllum skuli jafnheimilt að láta borgaralegan valdsmann gifta sig. Það teljum við flutningsmenn mikinn kost, og fjöldi manna víðs vegar úti um land og meiri hluti þessa þings álíta það mikinn kost. Jeg hygg, að allur þorri manna sje einhuga á þeirri skoðun, að með þessu frv. sje komist miklu nær því persónulega frelsi, sem stjórnarskráin lofar öllum mönnum, heldur en núgildandi lög um þetta efni gera.

Það er rjett hjá háttv. þm. (S. St.), að með þessu er ekki grafið fyrir allar rætur, sem saman liggja í borgaralegum og kirkjulegum efnum. Jeg vona, að við getum átt samvinnu um það síðar, ef við eigum eftir að vera á þingi saman, sem við búumst báðir við. Mjer er það ríkt í huga að ganga svo frá þeim málum, að engu verði þar saman blandað nema því, sem menn vilja af frjálsum hug. Jeg á hjer við það, að ríki og kirkja verði aðskilin til fulls. Þetta frv. er bót á ástandinu, sem nú ríkir, en jeg vona, að þeir, sem eru þeirrar skoðunar, að þetta eigi að leysast sundur að fullu, geti ekki haft á móti að taka þetta atriði til endurbóta, þótt ekki sje grafið fyrir allar rætur að þessu sinni, enda hefir það verið gert í aðalmenningarlöndum.

Þótt hjer sje farin þessi leið, að leyfa mönnum að velja um, hvort þeir vilja heldur nota borgaralega vígslu eða kirkjulega, þá blandast mjer ekki hugur um, að rjettast væri að skylda alla menn til að hlíta borgaralegum reglum um mál, sem eru algerlega borgaralegs eðlis. Og engum getur blandast hugur um, að hjónabandið er borgaraleg stofnun. Hjer er þó farinn sá gullni meðalvegur að lofa þeim, sem vilja, að nota prestana, meðan þeir sitja á þessari hillu, sem þeir eru nú á. En hitt er með öllu ósanngjarnt, að skylda þá menn til að hlíta prestlegri blessun, sem heldur vilja láta gifta sig borgaralega. Þá taldi háttv. þm. (S. St.), að þessi nýbreytni, mundi hafa ærinn og óskaplegan kostnað í för með sjer. Þessi ummæli hans eru auðvitað alveg út í hött, því að, eins og hann játaði sjálfur, er það ákvæði, er hjer að lýtur, tekið upp úr lögum, sem nú eru í gildi, sem sje það, að valdsmaður geti kvatt til brúðkaupsstefnu á þeim stað og stundu, sem honum þóknast. Það getur því ekki haft meiri kostnað í för með sjer nú en að undanförnu, ekki síst ef lögin verða ekki notuð meir en nú er, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) álítur. Þetta frv. eykur þá ekki neinn kostnað, nema þá þessi hækkun á pússunartollinum úr 4 upp í 8 kr., sem á að renna í landssjóð. (S. St.: Það munar ærið miklu). Það munar líklega meiru í augum háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fyrir það, að það er ekki óhugsandi, að við það dragist eitthvað frá tekjum prestanna.

Það er ekki rjett hjá háttv. þm. (S. St.), að ekki megi semja lög, sem geti svift einhverja stjett embættistekjum, án þess að endurgjald komi fyrir. T. d. gera m. a. lögin frá 1886 ráð fyrir, að menn geti komist undan prestlegri vígslu. Klerkar í Ed. hafa ekki heldur fengið sig til að verja »rjettindi« presta í þessu efni. Það ber ekki heldur að telja, að þau sjeu skert um skör fram.

Jeg hygg, að það sje rangt, að menn muni vilja leggja á sig þennan kostnað að eins af trúarlegum ástæðum. Flestir munu sjá, að margar aðrar ástæður gætu orðið trúarlegu ástæðunum jafnríkar.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta mál meir að svo komnu.