01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

103. mál, hjónavígsla

Sigurður Stefánsson:

Forlög þessa máls munu þegar vera ákveðin. Þó jeg hafi vikið orði að því, þá er það ekki af því, að mjer sem presti renni blóðið til skyldunnar eða sje þetta sjerlegt kappsmál.

Mig furðar á þeim ummælum háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að kostnaðurinn verði ekki meiri með þessu móti. Það þarf ekki annað en líta á embættisbústaði sýslumanna á landsbrjefinu til að sjá, að slíkt er fjarstæða. Það er ofætlun að ætla sjer að telja öðrum trú um, að það sje yfirleitt ekki ódýrara að fara til sóknarkirkjunnar sinnar en til sýslumanns. (G. Sv.: Til sóknarkirkju sinnar verða menn að fara hvaðanæva úr sókninni, nema leyfi sje keypt). Þótt svo yrði, að sýslumaður gæfi að jafnaði saman hjónin á skrifstofu sinni, þá er kostnaðarmunurinn æði mikill.

Það ætti háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og að vita, að það er ekki sanngjarnt að svifta embættismenn tekjum, þótt prestar sjeu, og bæta þeim ekki upp í neinu. En þetta er formatriði.

Jeg skal ekki neita því, að hjónabandið sje borgaraleg stofnun. En það mun varla spilla hjónaböndum hjer eftir fremur en hingað til, að vígslan sje kirkjuleg.

Eftir þessu frv. getur ferðakostnaður og annar kostnaður orðið 60—70 kr., og mun það rjett, sem jeg sagði, að það muni þurfa meiri en venjulegan áhuga til, að lagt sje út í hann. Er ekki líklegt, að aðrar ástæður en trúarlegar verði nógu ríkar.

Þess vegna munu lög þessi nánast verða dautt pappírsgagn.