01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

103. mál, hjónavígsla

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það er ekki laust við, að mjer þyki fyrir því, að þetta mál skuli hafa orðið þessum góðu kirkjunnar mönnum að sundurþykkjuefni. Báðir fylgja þeir hinni hreinu evangelisku kenningu, og munu vonandi sættast á öðrum sviðum. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) mun nú vera dauður í þessu máli, og skal jeg ekki leggja honum ámæli í gröfinni. Þetta verður að eins góðmannleg grafskrift, og ekki löng.

Þetta er stefnumál. Í stjórnarskránni, 47. gr., stendur, að enginn megi neins í missa af borgaralegum eða þjóðlegum rjettindum sakir trúarskoðunar sinnar. Nú er það þó svo, að þeir einir, sem eru utan þjóðkirkjunnar, hafa rjett til borgaralegrar vígslu. En margur, sem í þjóðkirkjunni er, mundi þó heldur kjósa hana. Hjer er um það að ræða, að menn öðlist rjett til þess, sem þeir heldur óska. Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) kvað þetta vera kák. En sama kákleiðin hefir verið farin víða annarsstaðar.

Frá sjónarmiði háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) ætti það að vera meðmæli, ef lögin yrðu að eins pappírsgögn. Þeim góða kirkjunnar manni, sem álítur það sáluhjálplegra, að prestur vígi hjón, en veraldlegur valdsmaður, ætti þá að liggja í ljettu rúmi, hvort frv. verður að lögum eða ekki.

Mörg dæmi þekki jeg til þess, að fólk virðist ekki horfa í kostnaðinn, þegar um giftingu er að ræða. Það er ekki óvenjulegt, að fólk komi hingað til Reykjavíkur austan úr sýslum til að giftast, »og svona kvað það vera um allar jarðir«. Menn gifta sig mikið á vorin í sveitunum, og nota sjer þá manntalsþingaferðir sýslumanna. Það yrði mönnum kostnaðarminst. (S. St.: Í sveitinni giftast menn ekki á vorin). Svo er þó oft, þar sem jeg þekki til, enda er það eðlilegast þeim, sem ætla að byrja búskap.

Rjettindamissir presta, ef þessi lög verða samþykt, er ekki meiri en rjettinda- og tekjumissir sýslumanna, er bannlögin gengu í gildi, og heyrðust þó engar kvartanir þá af þeim ástæðum. 2. gr. laga frá 15. okt. 1875 kveður svo á að fastlaunaðir embættismenn verði að láta sjer lynda hverja þá takmörkun, sem gerð er á yfirgripi og ásigkomulagi embætta þeirra, þótt þetta sje ekki tekið fram í hverju veitingarbrjefi. Prestar verða því að lögum að hlíta þessu.

Þá skal jeg ekki eyða fleirum orðum um þetta mál. Jeg þakka háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fyrir hans kirkjulega áhuga, og vona, að þótt honum og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafi ekki samið í þessu máli, að það valdi ekki sundrungu þeirra í milli um hið góða málefni, hina góðu og gömlu kenningu kirkjunnar, er þeir berjast fyrir.