08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Eggert Pálsson:

Jeg segi fyrir mitt leyti, að ef svo yrði álitið, sem brtt. þessi væri brot á bannlögunum, þá mun jeg ekki greiða atkvæði með henni. Og ef menn gætu drukkið sig kenda í bitter þessum, sjer að skaðlausu og án þess að spilla heilsu sinni, þá yrði því ekki neitað, að það væri brot á bannlögunum að leyfa, að hann væri seldur.

En nú finnast mjer upplýsingar þær, sem fram eru komnar í málinu, benda í þá átt, að slíkt sje ekki mögulegt.

Það eru til ýmsir vökvar, sem menn neyta til þess að verða ölvaðir, en jafnframt verða mönnum að heilsutjóni og bannlögunum er ekki ætlað að ná og geta ekki náð yfir.

Jeg lít því svo á, að heimfæra megi bitter þennan undir áfengi, sem spilt er til drykkjar, en er þó leyft að selja. Og með það fyrir augum mun jeg geta greitt till. atkvæði.

Hættan við að selja bitterinn mundi því ekki verða meiri en hættan við að selja ýmsa aðra áfenga vökva, sem þannig eru gerðir óhæfir til drykkjar. Og þar sem gætileg nautn þessa meðals virðist geta bætt heilsu manna, þótt ekki sje nema fyrir trúna eina, þá finst mjer ekki ástæða til að útiloka almenning frá neyslu þess, og það því síður, þar sem það á hina hliðina veitir landinu tekjur allmiklar, sem ekki fást með öðru móti.

Jeg sje því ekki ástæðu til að vera á móti því, að heimild þessi verði veitt, svo sem brtt. fer fram á.