02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

113. mál, lýsismat

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Þetta frv. er gamall gestur hjer í deildinni. Það dagaði uppi hjá sjávarútvegsnefndinni í þinginu í vetur.

Frv. er fram komið samkvæmt. ósk lýsissala, sem segja vera torvelt að selja lýsi »frítt um borð« nú sem stendur, þar sem ekki er lögboðið lýsismat, og erlendir kaupendur geta ekki treyst því, að lýsið sje rækilega flokkað eða slíkt að gæðum, sem þeim er sagt. Þess má raunar geta, að lýsissalar hafa komið á hjá sjer lýsismati, en verið erfitt að fá það nokkurs virt af þeim, sem lýsið kaupa, af því að lýsismatið fer ekki fram undir opinberu eftirliti.

Þetta mál snertir mjög mikið alla sjómannastjett landsins, því að hjer er um eina höfuðvörutegund sjávarútvegarins að ræða.

Árið 1912 var flutt út lýsi fyrir ½ miljón kr., en 1913 fyrir 800 þús. kr., og síðan styrjöldin byrjaði og lýsið komst í það geipiverð, sem nú er á því, er hjer um enn meiri fjárupphæð að ræða.

Sumar atvinnugreinar byggjast algerlega á þessari lýsissölu, t. d. selveiði og hákarlaveiði, og sömuleiðis eru hagsmunir háseta á botnvörpungum mjög komnir undir verði á lýsinu, því að þeir fá alla lifur, sem til fellur, í aukagetu. Það þykir því auðsætt, að tryggja beri sem best verð á lýsi, en það verður einungis gert með því, að mat fari fram. Það greiðir bæði fyrir sölunni og tryggir það, að varan sje góð.

Þær þjóðir, sem best hafa lýsismat, eru Norðmenn. Jeg hefi hjer í höndum samning þann, er norska stjórnin gerði í fyrra við England, um verð á norskum afurðum, og þar er lýsi flokkað í 16 tegundir.

Það kann því að vera, að stundum verði erfitt að fá menn, sem hafi næga þekkingu á að meta lýsið, en þó hygg jeg helst tiltækilegt að fela fiskimatsmönnum þennan starfa, því að þeir munu hafa best færi á að afla sjer þekkingar um málið, og verkið að öðru leyti samrækilegast starfi þeirra við mat á fiski.

Jeg óska, að málinu verði vísað til sjávarútvegsnefndar, og vona, að hún láti það nú ekki daga uppi, eins og í vetur.