08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Magnús Torfason:

Það var þessi »Molbúi« hans nafna míns, háttv. þm., Ak.

(M. K.), sem herti á mjer að standa upp.

Jeg er einn af þeim, sem eru á móti till., og vildi jeg gera stutta gr. fyrir því. Jeg vil þá láta þess getið, að það eru fleiri en Valdemar Petersen, sem ættu að eiga heimtingu á að fá bættan skaða, sem af því leiddi, að bönnuð var sala á lyfi þessu. Til eru margir menn úti um land, sem liggja með birgðir af því, sem gerðar voru upptækar; meðal annara hefi jeg allmikið undir höndum.

En enga ástæðu finn jeg til þess að fara nú að ýta undir ásókn manna í lyf þetta, einmitt þegar þeir eru farnir að sætta sig við að vera án þess. Fyrst eftir að salan var bönnuð komu margir til mín að biðja um glas og glas, en slíku er alveg hætt nú.

Sjerstaklega vil jeg þó leggja áherslu á það, að með því að leyfa söluna er haft fje út úr fátæku fólki, og það svo að allmiklu nemur. Jeg get ekki talið það rjettmætt, að landssjóður afli sjer tekna með slíku móti, og naumast getur það heitið samboðið sæmd þingsins.

Það mætti eins setja eina milliþinganefndina enn til þess að finna upp einhvers konar »Voltakross« til þess að græða fje á í landssjóð.

En ef sala væri leyfð á þessu lyfi, finst mjer, að leyfa ætti einnig sölu á »bitter« yfirleitt.

En það var hjer um árið, að læknir ráðlagði mjer að neyta bitterblöndu, mjer til heilsubóta, og gerði jeg það uns bannlögin gengu í gildi, en varð þá að hætta vegna þess, að svo var litið á, að óleyfilegt væri að selja hann lengur.