18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

135. mál, kornforðabúr

Björn Stefánsson:

Jeg bjóst við því, að háttv. frsm. (S. S.) mundi taka til máls, en af því að jeg sje ekki horfur á, að svo verði, vildi jeg segja nokkur orð um brtt. mínar, á þgskj. 279.

Þegar háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) flutti frv. sitt um afnám forðagæslulaganna, þá greiddi jeg því atkv., ekki af því, að jeg áliti ekki vera þörf á eftirliti, heldur af hinu, að jeg áleit lögin ekki ná tilgangi sínum og vera alveg óviðunanlega öryggisráðstöfun til þess, sem þau eiga að tryggja. Jeg hefi orðið þess var hjá mörgum háttv. þm., að þeir álíta — rjettilega auðvitað — að nú sjeu sjerstaklega ástæður og brýn nauðsyn til þess að ganga svo frá þessu máli, að örugt sje, og því var jeg með því að nema forðagæslulögin úr gildi, að jeg vonaðist eftir, að það yrði háttv. þm. sjerstök hvöt til þess að vinna að því, að nú þegar yrði sett eitthvað í staðinn, sem gagn væri í, en ekki unað við það að eins að káka við það, sem kák var fyrir. Núgildandi forðagæslulög virða menn víðast hvar einkis, enda hafa þau reynst pappírsgagn eitt, eins og jafnvel fylgismenn þeirra játa, en reynsla undanfarandi ára hefir kent mönnum svo mikið, og fengið þá til að viðurkenna, að hjer þurfi eitthvað við að gera. Því mundi því alstaðar vel tekið, ef eitthvað það kæmi í staðinn, sem menn gætu virt, og sæju, að gagn væri að. Að háttv. þm. sje ljóst, hve ónóg forðagæslulögin eru, sjest best á því, hve margar till. um þau hafa komið fram hjer á þinginu, en þær eru allar sama vandræðafálmið, sem lítið gagn eða bót er að.

Jeg skal þá víkja að brtt. mínum, sem jeg tel ganga í rjetta átt, þótt ekki sæi jeg til neins að stíga sporið fult.

Jeg get ekki verið því samþykkur að binda fóðurbætinn eingöngu við korn, og því vil jeg láta orða fyrirsögn frv. eins og 1. brtt. mín á þgskj. 279 segir. Fyrst og fremst getur það vel komið fyrir, að ómögulegt verði að útvega korn; t. d. eru horfur á, að svo verði í haust. Í annan stað getur oft svo á staðið, að korn verði miklu dýrara en annar fóðurbætir, og væri þá óhafandi í lögum, að fóðurforðabúrin yrðu að binda sig við það og ekkert annað.

Þá er í 1. gr. gert ráð fyrir því, að sýslunefndir geri samþyktir um kornforðabúr til skepnufóðurs fyrir einstaka hreppa. Þetta ákvæði tel jeg ekki heppilegt, enda er meiri hluti háttv. landbúnaðarnefndar mjer sammála um, að ekki sje heppilegt, að sýslunefndir kjósi forðagæslumenn, og á það sama sjer stað um forðatryggingar fyrir einstaka hreppa. Í stöku sýslum, eins og t. d. í Rangárvallasýslu, gæti þetta kann ske gengið, þar sem hjer um bil það sama ætti við í því efni um alla sýsluna. Í öðrum sýslum, t. d. Suður- Múlasýslu, eru skilyrði hinna ýmsu hreppa, landkostir, jarðsæld og vetrarríki, yfir höfuð svo gagnólík, að ekki gæti komið til mála að láta sama gilda fyrir þá alla. Auk þess er fjarlægð hreppanna svo mikil og viðkynning hreppsbúa svo lítil milli einstakra hreppa, að sumir sýslunefndarmenn eru svo ókunnugir því, sem við ætti í ýmsum öðrum hreppum sýslunnar, að þeir vita lítið betur, hvað við ætti þar, en menn vestan af landi. Ef ekki hefði staðið svo á, að háttv. samþingismaður minn (Sv. Ó.) er sýslunefndarmaður Mjóafjarðarhrepps, þá mundi jeg hafa sagt, að í Mjóafirði væri vandfundinn maður, sem gæti samið forðagæslureglugerð fyrir Geithellnahrepp, að minsta kosti betur en Geithellnahreppsbúar mundu sjálfir gera hana úr garði.

Í 2. gr. er ákveðið, að atkvæðisrjett á fundum um þetta mál hafi allir, sem kosningarrjett hafa til Alþingis. Mjer finst þetta óeðlilegt ákvæði. Tel rjettara, að miðað sje við atkvæðisrjett í sveitamálum, og vil þá bæta þar við búendum, þótt yngri sjeu en 25 ára. Jeg tel þá ekki síður bæra um að greiða atkv. og vera í ráðum um svona mál en suma alþingiskjósendur, t. a. m. sumar piparmeyjar, sem aldrei hafa átt kind, einkum ef þær hafa þá ekki heldur rakað ljáfar á æfi sinni

Torfi sál. í Ólafsdal vildi binda atkvæðisrjett í svona málum við þá, sem hefðu grasnyt. Það hefði vel getað komið til greina að hafa þetta svo, þótt ekki hafi jeg tekið það upp.

Þá vil jeg breyta 3. gr. nokkuð. Í frv. er gert ráð fyrir, að 2 fundi þurfi að halda um málið á samþyktarsvæðinu. Jeg hefi aftur á móti ekki gert ráð fyrir nema 1 fundi, en aftur á móti sett inn tryggingu fyrir því, að þessi eini fundur sje vel boðaður og með nægum fyrirvara, og jafnframt breytt atkvæðamagni því, sem úrslitum getur ráðið, úr ? í ¾.

Síðan heimilin urðu svo fámenn, sem nú er víðast orðið, þá er oft erfitt, einkum í strjálbygðum sveitum, að ná saman fjölmennum fundum. Það mundi því geta staðið fyrir því, að nokkur samþykt kæmist á, ef heimtað væri, að 2 fundi þyrfti að halda til þess, með litlu millibili. Aftur á móti hefði getað komið til mála að heimta, að fullur helmingur atkvæðisbærra manna mætti, en jeg hefi þó slept því af sömu ástæðu, en látið nægja að tryggja það, að fundurinn væri vel boðaður og yfirgnæfandi meiri hluti fundarmanna væri sammála.

Um brtt. við 5., 11. og 12. gr. skal jeg ekki fjölyrða. Þær eru bara afleiðing af þeim, sem áður eru nefndar.

En þá kem jeg að 7. brtt. minni, um að bæta inn í nýrri grein, sem verður 14. gr. Hún stendur ekki í neinu sambandi við hinar brtt. Hún er sjálfstæð, svo að ef menn hafa sjerstaklega ímugust á henni, þá má fella hana, þótt hinar verði samþ. Eins er það, að það veldur engu ósamræmi á frv. að samþ. hana, þótt hinar verði feldar. Þessa till. tel jeg til mikilla bóta. Jeg álít, að mjög óheppilegt sje, að tvenn lög gildi samtímis í sömu sveit um forðatryggingu. Jeg er hræddur um, að það geti leitt til þess, að hvorttveggja lögunum verði slælega fylgt, en ef um að eins ein lög eða samþykt væri að ræða, sem sniðin væri eftir því, sem við ætti á hverjum stað, og af þeim mönnum, sem við þau ættu að búa, þá hygg jeg, að undanfarin reynsla og vaxandi skilningur á því, um hvílíkt velferðarspursmál er að ræða, gerðu það að verkum, að með alvöru og áhuga væri eftir gengið. Enda væri þar um að ræða kvaðir og reglur, sem menn hefðu sett sjer með frjálsum samþyktum, sniðnum eftir staðháttum, í staðinn fyrir óvinsælt valdboð, sem óvíða á við, eins og eðlilegt er. Staðhættir eru svo ólíkir hjer á landi á ýmsum stöðum — jafnvel í sömu sveitinni — að það er blátt áfram barnalegt að hugsa sjer, að sömu fóðurforðareglur geti gilt um land alt. Þess vegna eiga allir landshlutar að hafa leyfi til, undir eftirliti landsstjórnarinnar, að sníða sínar tryggingarreglur eftir því, sem hjá þeim hentar — og það vil jeg einmitt taka fram og leggja áherslu á hjer, í áheyrn hæstv. stjórnar, að jeg hvorki ætlast til nje mæli með, að hún löggildi aðrar samþyktir en þær, sem fela í sjer öruggari tryggingar gegn fóðurskorti en í forðagæslulögunum felast.

Jeg hefi ekki talað út í bláinn um óvinsældir forðagæslulaganna. Jafnvel fylgismenn þeirra játa það með mjer, og háttv. minni hluti landbúnaðarnefndarinnar þorir ekki að hækka svo laun forðagæslumanna, að viðunanlegt geti talist, vegna þess, hve óvinsæl þau sjeu. Þessar óvinsældir stafa samt ekki af því, að menn vilji engar öryggisráðstafanir gera, heldur af því, að menn vilja ekki búa við lög, sem eru pappírsgagn eitt, og eru að eins til þess, að aðrar öruggari ráðstafanir sjeu ekki gerðar. Nei, menn vilja meiri og betri tryggingu en í forðagæslulögunum felst, og þetta frv. með brtt. mínum kemst þó svo langt, að það opnar mönnum leið til að búa um þetta eftir geðþótta. Þess vegna hefi jeg góða von um, að þetta frv. verði til góðs, ef brtt. mínar verða samþ. En það vil jeg taka fram enn einu sinni, að stjórnarráðið má ekki staðfesta sveitasamþyktirnar, nema í þeim felist meiri trygging en forðagæslulögin veita.