18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

135. mál, kornforðabúr

Björn Stefánsson:

Út af því, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, um að jeg tæki tillögur mínar aftur, skal jeg geta þess, að jeg get ekki orðið við þeim tilmælum, á meðan mjer er ekki sannað, að þær sjeu verri en ákvæði frv.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) talaði um, að korn geymdist betur en aðrar fóðurtegundir. Jeg skal játa, að það er satt; en hvar kemur það fram í brtt. mínum, að jeg vilji banna korn til skepnufóðurs. Jeg vil einungis heimila að nota fleiri fóðurtegundir.

Háttv. frsm. (S. S.) talaði t. d. um síld og lýsi, sem ekki væri hægt að geyma, en jeg sje ekkert á móti því að hafa það til á haustin, þótt ef til vill þurfi ekki að nota það. Það er reynsla bænda, að það sje gróði að gefa kraftfóður, enda þótt þeir hafi nóg hey. Þótt komið væri fram yfir miðjan vetur, og það sýndi sig, að nóg fóður væri til, þá væri ekki annað en að gefa kraftfóðrið, sem ekki þyldi geymslu, og fyrna hey.

Það mætti ætla af ræðu háttv. frsm. (S. S.), að það hefði verið till. mín að útiloka korn úr forðabúrunum, en svo er alls ekki. Tillaga mín miðaði að því, að það mætti einnig gera ráð fyrir fleiri fóðurtegundum en korni, svo að ekki þyrfti að miða kornforðasamþyktirnar, sem jeg vil nefna fóðurforðatryggingar, við korn og ekkert annað; einkum finst mjer það sjálfsagt meðan kornið er svona dýrt, og auk þess vafasamt, hvort hægt er að afla þess.