06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

131. mál, seðlaupphæð

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get búist við, að sumum þyki það undarlegt, að frv. þetta kemur frá nefnd. En ástæðan til þess er sú, að hæstv. landsstjórn fór fram á það við fjárhagsnefndina, að hún flytti þetta mál, til þess að spara fyrirhöfn og greiða fyrir málinu, því að stjórnin hefði annars orðið að síma frv. til konungs og fá samþykki hans til að flytja það. Það var einróma álit nefndarinnar, að engin ástæða væri til að skorast undan þessum tilmælum stjórnarinnar, því að hún fjekk þær upplýsingar, að landssjóður skuldaði bankanum um 5 miljónir kr., og að búast mætti við, að hann gengi að landssjóði með greiðslu á þessum skuldum, ef hann fengi ekki leyfi til að auka seðlafúlgu sína.

Frv. þetta er í fullu samræmi við lög, sem samþykt voru á aukaþinginu í vetur. Jeg skal ekki fara frekar út í þetta mál. Það þótti nauðsyn í vetur að setja þessi lög, og jeg býst við, að ekki þyki bera minni nauðsyn til þess nú. Það var þá tekið fram í umræðum um þetta mál, að á það bæri að líta sem einn lið í ófriðarráðstöfununum, og þannig er það líka nú. Þess vegna greiði jeg atkvæði með frv., sem jeg mundi að öðrum kosti ekki gera. En jeg vil þá um leið taka það fram, að fjárhagsnefnd er ekki vonlaus um, að þetta geti orðið í síðasta sinni, sem gripið er til þessa örþrifaráðs, og að hægt verði að finna einhver önnur ráð til bæta úr vandræðunum heldur en að veita bankanum þenna bráðabirgðarjett hvað eftir annað. Að þessu sinni vona jeg, að háttv. deild líti á nauðsynina og greiði götu málsins.