06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

131. mál, seðlaupphæð

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi svo sem engu að bæta við það, sem háttv. frsm. (M. G.) hefir tekið fram. Jeg er háttv. fjárhagsnefnd mjög þakklátur fyrir það, að hún var fús á ,að taka frv. upp. Stjórnin hefði orðið að gera það að öðrum kosti. Nefndin hefir því sparað stjórninni kostnað og fyrirhöfn við það að síma frv. til konungs. Jeg get ekki sjeð, að nokkurt undanfæri sje frá því að samþykkja þetta frv. Stjórnin verður að leita til bankans og fá hjá honum alt það fje, sem hann getur af sjeð. Bankarnir hafa báðir gert það að láta af hendi við landsstjórnina alt það fje, sem þeir geta mist. Það er líka alveg rjett, sem háttv. frsm. (M. G.) tók fram, að þetta sje einn liður í ófriðarráðstöfununum, sem ekki á að standa til frambúðar. Og það er ekki vonlaust um, að hægt verði að komast hjá því að framlengja seðlaútgáfurjett bankans hvað eftir annað.