11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

131. mál, seðlaupphæð

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg var því miður ekki kominn, þegar háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) byrjaði ræðu sína. Jeg hygg, að hann hafi talað um, hvort samið hafi verið við bankann um hámark lánsins, sem landið þarf að fá hjá honum. Jeg skal svara því, að það hefir ekki verið gert, en bankinn hefir lofað að láta stjórnina fá alt það fje, sem hann getur mögulega mist. Annars skal jeg upplýsa það í þessu máli, að bankinn hefir sjálfur orðið að lána stórfje, til þess að geta hjálpað landinu um þá peninga, sem það hefir þurft á að halda. Jeg held því, að hjer standi svo á, að ekki sje um nokkurn annan veg færan að tala en að samþykkja þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Og jeg fæ ekki með nokkru móti sjeð, að rjett sje að setja bankanum strangari skilyrði, þegar landssjóður er upp á bankann kominn, heldur en þegar hann þarf ekkert fje að fá til láns hjá honum. Jeg held því, að sjálfsagt sje að samþykkja umtölulaust þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Enda sýnist mjer það vera óhætt með öllu, þegar landið skuldar bankanum meira fje en ábyrgð þess nemur.