11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

131. mál, seðlaupphæð

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki mikið að segja um þetta mál. Jeg man ekki, hvort háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) var við látinn, þegar jeg talaði um þetta mál við 1. umr. En hafi svo verið, þá hefir hann heyrt, að okkur ber í raun og veru ekki mikið á milli. Jeg sagði þá, að það væri vandræðafyrirkomulag að vera altaf að veita heimild til aukinnar seðlaútgáfu þing eftir þing, en að jeg skoðaði þetta nú, eins og á aukaþinginu í vetur, sem einn lið í ófriðarráðstöfununum. Hvað það snertir, að vjer getum tekið bankann eignarnámi, þá er því að svara, að þótt vjer gætum það, er það að eins mögulegt gegn fullu endurgjaldi, og hvað vinst þá? Landssjóður skuldar bankanum, eftir því sem hæstv. stjórn skýrir frá, um 5 miljónir kr., og verði þetta frv. eigi samþ., mun bankinn heimta greiðslu, og gæti þetta valdið miklum erfiðleikum fyrir oss.

Sami háttv. þm. (B. Sv.) sagði,. að semja þyrfti við bankann, og er það rjett, en slíkir samningar eru á verksviði stjórnarinnar, en ekki Alþingis. Annars skal jeg taka það fram, að jeg vona, að þetta geti orðið í síðasta sinni, sem þarf að framlengja þetta leyfi til aukinnar seðlaútgáfu, og byggi jeg það á samningaumleitunum, sem þegar hafa átt sjer stað. En út í það tel jeg mjer eigi heimilt að fara frekar nú sem stendur.