11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

131. mál, seðlaupphæð

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held, að það hljóti að hafa verið spaug, sem háttv. þm. N.-Þ.

(B. Sv.) sagði síðast, um að taka bankann eignarnámi. Jeg fyrir mitt leyti get ekki tekið það í alvöru.

Það kemur ekki þessu máli við, hvort bankinn hefir grætt á síðasta ári. Það er rjett, að hann græddi, enda var árið í alla staði óvenjulegt, Gróði hans mun mest hafa stafað af því, að þá var greitt mikið fje bankanum, sem áður hafði verið talið tapað.

Jeg fæ ekki sjeð, að það ætti að verða því til fyrirstöðu, að þessi lög verði samþ., þó að ekki sje búið að binda samningum vexti af lánum landssjóðs, því að það er ekki verið að veita bankanum rjettindi, heldur stjórninni heimild, sem hún getur svo notað til að hafa áhrif á lánsupphæðir og vexti í viðskiftum sínum við bankann. Annars ímynda jeg mjer, að stjórnin þurfi ekki á miklu meiri lánum að halda en hún hefir þegar tekið eða fengið loforð fyrir. Það er ekki heldur hægt að semja að fullu um vaxtakjör fyrirfram. Það er ekki alt hans eigið fje, sem lánað verður. Þess vegna verða vaxtakjörin að fara eftir þeim kjörum, sem Íslandsbanki fær hjá útlendum bönkum. Það er ekkert nýtt, að stjórnir taki svona lán. Mjer er sagt, að stjórnir á Norðurlöndum eigi víxillán í næstum öllum bönkum. Vitanlega hefir stjórnin hjer líka tekið lán hjá Landsbankanum, eins og hann gat veitt. Og þar sem stjórnin hefir nú tekið alt það fje að láni hjá Íslandsbanka, sem hann gat látið af hendi, þá ber eiginlega skylda til að láta þetta eftir honum í þetta sinn. Jeg hefi látið í ljós við bankastjórnina, að hún gæti örugg lánað landssjóði fje; hún þyrfti ekki að óttast vandræði með gjaldmiðil innanlands. Um lán landssjóðs er sumpart samið, hve lengi eigi að standa, og um þau öll þori jeg að segja, að þeim verður ekki sagt upp á meðan landsstjórnin þarf þeirra með. Þetta gæti jeg staðfest betur, ef óskað væri, við 3. umr.