13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

131. mál, seðlaupphæð

Benedikt Sveinsson:

Samkvæmt því, sem fram kom í umr. um mál þetta við 2. umr. þess, höfum vjer 4 þingdm. leyft oss að koma fram með brtt. við frv., og vil jeg nú fara fám orðum um þær.

Fyrsta brtt. er sú, að á eftir orðunum í 1. málsgr. 1. gr. »svo sem viðskiftaþörfin krefur«, komi: »að dómi landsstjórnar«. Oss flutningsmönnum brtt. þykir rjett, að það sje tekið fram með berum orðum, að landsstjórnin leggi sjálf dóm á það í hvert einstakt sinn, sem farið er fram á það að auka seðlaútgáfuna, hvort þess sje full þörf eða ekki. Sje þetta ekki tekið fram, má vera, að stjórnin tæki eigi málið til sjálfstæðrar rannsóknar, heldur ljeti sjer nægja að fara eftir einni saman frásögn bankastjórnar og till. hennar. Landsstjórnin fær ríkara aðhald við það, að orðum þessum sje bætt inn í frv.

Önnur brtt. er og við 1. gr. tölul. 2. Hún er í tvennu lagi, aðaltillaga og varatillaga. Aðaltill. fer fram á, að bankinn greiði 4% í vexti af seðlum þeim, sem þar er um talað að hann greiði vexti af, í staðinn fyrir 2%, eins og frv. gerir ráð fyrir. Varatill. leggur til, að í staðinn fyrir 2% komi 3%.

Hagur bankans er svo glæsilegur, að hann hefir grætt hátt upp í miljón kr. síðastliðið ár, og ætti hann því að geta staðið sig við að borga þessa 4%, eða að minsta kosti 3%, af seðlaaukningu þeirri, sem ekki er gulltrygð, heldur gefin út á ábyrgð landssjóðs; því að jeg verð að telja það sjálfsagt, að þegar landið veitir bankanum mikilsverð rjettindi, þá sje skylda þings og stjórnar að gæta þess, að landið fái sem mest í aðra hönd að unt er.

Þriðja brtt. er ætlast til að verði nýr liður og viðbót við hin skilyrðin, sem sett eru fyrir því, að bankinn fái aukinn seðlaútgáfurjett; skal jeg leyfa mjer að lesa hana upp, og er hún þannig.

»Samningar hafi tekist áður en aukningin er veitt, milli landsstjórnarinnar og bankans, um lán þau, er landssjóður kann að þurfa að taka í bankanum, og sjeu vextir af slíkum lánum að minsta kosti 1% lægri en bankaútlánsvextir eru hjer á sama tíma.«

Það kom fram við 2. umr. málsins hjer í deild í ræðu háttv. frsm. (M. G.), að samningar væru byrjaðir milli landsstjórnarinnar og bankans um lántöku handa landinu og um lánskjörin. En í ræðu hæstv. forsætisráðherra kom það nú í ljós, að enn væru engir fastir samningar komnir á um lánið nje lánskjörin; bankinn hefði að eins haft góð orð um að lána það, sem hann frekast gæti; en um vextina ljet hæstv. forsætisráðherra það í ljós, að þeir mundu verða vanalegir bankavextir.

Þar sem landið veitir bankanum ýms hlunnindi og er að sjálfsögðu vissasti og besti viðskiftavinur bankans, þá væri ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt, að hann nyti nokkru vægari vaxtakosta en aðrir.

Bankar setja jafnan nokkru hærri vexti á lán sín vegna þess, að gera má ráð fyrir, að eitthvað af þeim tapist. En fje það, er Íslandsbanki lánar landinu, má telja í svo öruggum skuldastað, að engin líkindi eru til þess, að hann tapi nokkru af því; hann má eiga það víst, að ekki strýkur landið frá víxlum sínum til Ameríku. Af þessari sök einni, þótt ekki væri fleira, ætti landssjóður að fá nokkru betri lánskjör hjá bankanum heldur en aðrir. En nú bætist það við, að til stendur, að landssjóður verði stærsti viðskiftavinur bankans, og veitir honum þar að auki að öðru leyti mikilvæg hlunnindi. Þetta hvorttveggja er mjög þungt á metunum, þeirri kröfu til rjettlætingar, að landssjóður fái ríflega ívilnun í lánskjörum, móts við alla aðra viðskiftavini bankans.

Ef svo skyldi fara, sem jeg býst þó varla við, að háttv. deild vilji hlífa bankanum við að borga 4% af seðlum þeim, sem hjer ræðir um, þá trúi jeg því ekki að óreyndu, að nokkur greiði atkv. á móti varatill., um 3% gjaldið, og allra síst trúi jeg því, að ekki fylgi allur þingheimur svo sjálfsagðri kröfu sem þeirri, að landssjóður greiði 1% lægri vexti en aðrir; en það munar hann fimtíu þúsundir kr. á ári, ef lánið verður 5 miljónir, eins og mjer skildist að ráð sje fyrir gert.

Fjölyrði jeg svo ekki meir um þetta, en bið deildina að taka brtt. til rækilegrar íhugunar. Jeg þykist vita, að þær muni hafa allmikið fylgi, þar sem þær eru fluttar af fjórum þm., sínum úr hverjum flokki.