13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

131. mál, seðlaupphæð

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg mæli að vísu ekki á móti því, að umræðu sje frestað um mál þetta. En ekki get jeg varist því, að mjer virðist í brtt. koma fram allmikil ósanngirni, ekki einungis gagnvart bankanum, heldur engu síður gagnvart stjórninni. Að samþykkja brtt. er alveg sama sem að neita bankanum um að auka gjaldeyri sinn; en afleiðingin mundi verða sú, að bankinn yrði að heimta það, sem landið skuldar honum nú, að undanteknum þrem miljónum, sem hann hefir lánað til lengri tíma. Því síður getur hann hlaupið undir bagga með ný lán, hvað mikið sem á kann að liggja. Bankinn hefir sjálfur orðið að taka stórlán í útlöndum. Má jeg hafa það eftir bankastjórninni, að hann skuldar þar nú meira en 5 miljónir króna, eða meira en hann hefir lánað landssjóði. Af þessu lánsfje verður bankinn að borga í vexti 5½%, og er það síst ósanngjarnt, eftir því sem tíðkast hjá bönkum, að hann taki ½% fyrir fyrirhöfn sína. Hitt veit hv. þm. (B. Sv.) eins vel og jeg, að Íslandsbanki þiggur ekki seðlaaukningarrjettinn, ef hann á að borga 4%; hann hefir hiklaust lýst yfir því. Sjálfs sín vegna þarf hann ekki á þessu að halda, en landssjóður getur ekki komist af án þess að taka lán, og þetta lán þarf hann nú að fá hjá Íslandsbanka; hjá honum þarf hann meira lán en bankinn getur veitt af sínu eigin fje, og verður hann því að nota sitt eigið lánstraust til að geta hlaupið undir bagga með landssjóði. Það er því óforsvaranlegt, eins og nú er högum háttað, að leita ekki samkomulags við bankann, og það er meira en óforsvaranlegt að kasta þessari brtt. inn í deildina á síðasta augnabliki, öllum að óvörum, og ætlast til þess, að háttv. deild greiði atkvæði um hana, lítt yfirvegaða, og vita þó, hvað í húfi er, ef bankinn verður neyddur til að kippa að sjer hendinni. Kostirnir, sem bankinn býður, eru að veita landinu víxillán með venjulegum forvöxtum, en án framlengingargjalds. Að sjálfsögðu mun landsstjórnin reyna að útvega fast lán svo fljótt, sem kostur er á, en við þetta lánsfyrirkomulag verður að una, þangað til það er komið í kring.