10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

146. mál, almenn hjálp

Gísli Sveinsson:

Það hefði verið viðkunnanlegra, að frv. minni hlutans hefði komið fyr á dagskrá en þetta, af því að það kom fyr fram. Jeg býst við, að það sje meiningin, að þau verði bæði samferða á dagskrá til 2. umr., og þá verð jeg að geta þess, í því sambandi, að von er á — og hefir nú verið útbýtt hjer í háttv. deild — nýju frv. um dýrtíðarstyrk til einstakra manna, og stend jeg að því. Jeg býst við, að þessi bæði bíði þá eftir því, svo að öll þrjú bjargráðafrv. verði samflota við 2. umr. Jeg vil geta þess, enda þótt ekki liggi nú fyrir til umræðu annað en frv. meiri hlutans, að jeg álít þá leið, sem háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) stingur upp á í frv. sínu, alls ekki færa, því að það er engin meining að veita öllum ívilnun með verð, jafnt vel efnuðum sem öðrum, því að nú verða allir að brjótast áfram eins og þeir geta. Það er kunnugt, að enda þótt mikill hluti almennings sje illa staddur, og það jafnvel svo, að að því geti rekið, að það verði að hlaupa undir bagga, þá eru þó til þeir menn í þjóðfjelaginu, sem hafa grætt á þessu ófriðarástandi, og hvaða meining er í því að landssjóður fari að leggja á sig miljónahalla með því að borga verðhækkunina, þar sem þeir eiga í hlut, og gera þar með þeim, sem grætt hafa á ástandinu, óþarflega auðvelt fyrir að kaupa nauðsynjar sínar? Jeg sje enga ástæðu til, að landssjóður taki á sig halla fyrir þá, sem nóg fje hafa til að kaupa fyrir.

Í þessari dýrtíð verður fyrst og fremst um það að ræða að gera mönnum sem hægast fyrir að halda atvinnu sinni og sæmilegu kaupi, og ef það hrekkur ekki, verður að veita þeim, sem í þrengingar komast, vegna þessa ástands, styrk úr landssjóði, sem þeir eiga ekki að þurfa að greiða aftur, nema þeir hafi efni á. Það má ganga svo frá þessu máli, að þeir, sem ekki geta framfleytt sjer og sínum, verði styrktir með fjárframlagi, og í þessu sambandi vil jeg geta þess, að mitt frv. fer einmitt í þessa átt.

Hvað það snertir, að landssjóður veiti lán hreppum og bæjarfjelögum, og þau láni aftur þeim, er skakkafall bíða af völdum þeirra hörmunga, sem nú geisa, þá álít jeg það ósamboðið landssjóði, því að hrepparnir og sveitarfjelögin geta fengið lán hjá bönkum og öðrum lánsstofnunum. Hjer er ekki heldur í þessu frv., sem nú liggur fyrir, að ræða um, að landssjóður veiti lán með betri kjörum en bankarnir. Ef sú stefna verður tekin að láta sveitarfjelögin taka lán, er sá vegur einn opinn, að það lán verði tekið hjá lánsstofnunum, bönkunum, enda er mjer kunnugt um, að sumir hreppar hafa þegar farið þá leið. Það er óþarfi að láta landssjóð vera að ljetta af lánsstofnunum. Jeg tel þá leið ekki henta, en jeg er líka á móti hinni tillögunni, sem mjer mun gefast kostur á að ræða um síðar. Jeg vil einungis hlaupa þar undir baggann, sem þörfin er mest. — Sanngjörn hækkun á vinnukaupi og uppbót á starfslaunum kemur ekki þessu máli við.