22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

146. mál, almenn hjálp

Einar Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að lýsa þakklæti mínu við þá menn, sem eru að reyna að bæta úr kjörum þeirra, sem í nauðum eru staddir. Það er kunnugt, að stungið hefir verið upp á ýmsum bjargráðum, en jeg verð að segja fyrir mig, að mjer gest best að till. þeim, sem bornar eru fram á þgskj. 335. Að vísu heyri jeg, að ýmsir háttv. þm. eru að setja út á þær. En jeg býst við, að lengi verði eftir því að bíða, að ósk hæstv. forsætisráðherra uppfyllist, að allir verði á eitt sáttir í máli þessu. Jeg held helst, að eins og við horfir sje ekki önnur leið heppilegri en sú, að veita bæjar- og sveitarfjelögum lán til að bjarga mönnum; það mun óhætt mega treysta því, að þau fari ekki lengra í lántökum en brýn þörf krefur. Jeg held, að það sje miklu rjettari leið en að fara að selja vörur undir sannvirði. Jeg lasta að vísu ekki, þótt sú till. hafi komið fram, en jeg hefi ekki trú á, að hún komi að haldi eða sje fyllilega rjettlát.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var hræddur um, að þeir yrðu fyrir misrjetti, sem styrk yrðu að fá áður en lög þessi kæmu til framkvæmda, borið saman við hina, sem fengju hann síðar. En jeg held, að það sje ekki svo hætt við því, því að þegar sveitarstjórnir vita um lánsheimildina, sem lög þessi veita þeim, þá munu þær geta hagað því svo til, að hjálp sú, sem einstöku menn kunna að þurfa á að halda áður en í lánið næst, þurfi ekki að teljast sveitarstyrkur.

Það held jeg og, að eigi sje ástæða að efast um, að sveitarstjórnir muni úthluta styrknum sanngjarnlega; og víst tel jeg, að sveitarstjórnir mundu ekki veita hann öðrum en þeim, sem þyrftu. Öðru máli er að gegna, ef fara ætti að selja vörur undir verði; þá nytu allir góðs af því, ríkir jafnt sem fátækir, og svo víðtækan styrk höfum við ekki ráð á að veita; og landssjóður má ekki fara lengra en að hjálpa að eins hinum fátæku, en láta hina bjarga sjer sjálfa. En ef vörur eru seldar undir sannvirði, þá nær það jafnt til allra. Þar kemur það sama sem með uppbótina til embættismanna. Það eru ekki allir embættismenn, sem þarfnast dýrtíðaruppbótarinnar, en ekki auðvelt að gera upp á milli þeirra, og því fá þeir hana allir, Eins njóta allir góðs af, ef vörur eru seldar undir verði. (B. J.: Og stórbændur líka, þar á meðal bóndinn á Geldingalæk, E. J.). Já, en jeg er ekki að biðja um neina dýrtíðaruppbót og kæri mig ekki baun um hana. Hefi hugsað mjer að leitast við að bjargast á eigin spýtur hjer eftir sem hingað til, án sveitarstyrks úr landssjóði.

Að öllu athuguðu er það sjálfsagt stór nauðsyn að gera hjer eitthvað, og þá fyrst og fremst að bjarga fátæklingum frá sveit, og þar sýnist mjer háttv. bjargráðanefnd hafa valið heppilegan veg.

Ýmislegt væri fleira að athuga í sambandi við þetta mál, en það heyrir ekki dagskránni til, og fer jeg því ekki langt út í það. Þó ætla jeg að minnast á, að hjer í Reykjavík horfir til vandræða með atvinnu í vetur; því sýnist það ekki góð tilhögun að láta vel vinnandi menn vinna að götugerð hjer um hásláttinn, þar sem þó vitanlegt er, að mannaskortur er í sveitinni og að bændur mundu taka með þökkum að fá þessa menn fyrir kaupamenn og gjalda þeim hátt kaup. Það sýndist því nær, að götuvinnan væri geymd til hausts og vetrar. Að vísu á þingið eða landsstjórn ekki sök á þessu sleifarlagi, heldur bæjarstjórn Reykjavíkur, en mjer þótti þó rjett að hreyfa því, einkum af því, að hjer situr á þingi einn úr bæjarstjórninni (J. B.), og mætti vera, að hann vildi taka þessa bendingu til greina.