22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

146. mál, almenn hjálp

Matthías Ólafsson:

Háttv. l.þm. Reykv. (J. B.) skoraði á mig að skýra, hvað jeg teldi að lifa sómasamlega. Það er fljótgert. Það er að hafa nóg í sig og á. En það er ekki hægt að búast við því, að þegar óeðlilega margir menn safnast saman á einn stað, geti þar allir lifað sómasamlega. Tökum t. d. bæ eins og Lundúnaborg. Til þess verður ekki ætlast. Þetta liggur í því öfugstreymi til kaupstaða, sem tímunum fylgja. Allur fjöldi manna, sem lifir á handafla sínum, getur rjett að eins búist við því að lifa sómasamlega, eins nú og fyrir stríðið. Hlutföllin eru söm nú og þá. Daglaunin hafa hækkað með verðinu. Og hvað þýðir að færa niður verðið, ef daglaunin eru lægri? Eru þessir menn nokkuð betur staddir með því? Jeg fæ ekki skilið það. Alt öðru máli er að gegna, ef bærinn fær fje til fyrirtækja; þá getur hann veitt mönnum atvinnu.

Jeg ímynda mjer, að allir hljóti að játa, að þessi skoðun er hollari og að þessi stefna er margfalt betri en að veita mönnum gustukastyrk, því að vinnan er blessun, en iðjuleysið skaðlegast af öllu, sem fyrir nokkurn getur komið.