28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

146. mál, almenn hjálp

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Bjargráðanefndin hefir tekið þetta mál enn á ný til meðferðar, og kemur nú fram með brtt. til frv., sem liggja fyrir á þgskj. 608. Nefndin hefir öll orðið sammála um þessar brtt., enda eru þær í samræmi við óskir manna og ummæli við 2. umr. þessa máls. 1. brtt. hljóðar um það, að lánin skuli standa vaxta- og afborganalaus þar til 2 árum eftir ófriðarlok, en endurgreiðast á næstu 10 árum. Um þetta atriði er líka komin fram brtt. frá 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem fer fram á, að lánin til bæjarfjelaga og hreppsfjelaga sjeu veitt alveg vaxtalaust. Bjargráðanefndin hefir ekki sjeð þessa tillögu fyr en núna og hefir ekki getað haldið fund um hana. Jeg veit því ekki, hverja afstöðu nefndin í heild sinni mundi taka til hennar. Að vísu kemur það fram í 1. brtt. nefndarinnar, að hún kemst inn á þessa stefnu, en jeg veit ekki, hvort einstakir menn úr nefndinni vildu ganga lengra. (Sv. Ó.: Tillagan er tekin aftur.) — Jæja, það er gott. — En annars ætlaði jeg að segja það, að þing verður áreiðanlega haldið áður en þessi tvö ár eru liðin, og verður þá hægt að framlengja tímann, sem lánin skuli vera vaxtalaus, ef ástæða þykir til.

Viðvíkjandi 2. brtt., um það, að heimilt skuli að veita lán í vörum með sömu kjörum, er það að segja, að í upphaflegu tillögunum er ekki tekið fram, að lán megi veita öðruvísi en sem peningalán. Þetta er auðvitað brotaminna. Þar sem miklum hluta af fjenu, sem að láni verður veitt, verður að sjálfsögðu varið til vörukaupa, þá er einfaldara að lána blátt áfram vöruna.

3. brtt. er orðalagsbreyting, sem óþarfi er um að ræða.

4. brtt. er við 3. gr. frv. Nefndin hefir nú lagað misfellur, sem þóttu vera á frv., eftir því sem heyrðist í ummælum manna við 1. og 2. umr. þessa máls. Í frv. er svo ákveðið, að lán þau, sem veitt verða einstökum mönnum, skuli ekki talin sveitarstyrkur, ef þau eru endurgreidd innan 10 ára frá lokum ófriðarins. Hjer er gerð sú bragarbót, sem jeg veit að allir sætta sig við, og sumir taka fegins hendi, að þessi lán skuli aldrei talinn sveitarstyrkur. Þetta eru brtt. allrar nefndarinnar. Hvort einstakir menn úr nefndinni hafa eitthvað annað fram að bera veit jeg ekki, en nefndin í heild sinni hefir ekki orðið sammála um annað en þetta.