28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

146. mál, almenn hjálp

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi þann heiður að tilheyra minni hluta bjargráðanefndar í þessu máli, sem öðrum. Vil jeg því með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu hans til þess, sem hjer er um að ræða.

Minni hlutinn lítur svo á, að þetta frv. sje ekki enn nema hálfverk af því, sem þurfti að gera. En þó skal því ekki neitað, að frv. hefir stórum batnað við fund þann, sem meiri hlutinn átti með okkur minni hluta mönnum. Það er sjerstaklega bót í því, að lán megi veita í vörum. Það hlýtur auðvitað að reka að því, þegar að harðnar, að landssjóður verður að útbýta vörunum til sveitarfjelaganna, til þess að fyrirbyggja það, að menn deyi úr hungri eða kulda. Það kemur þá til síðari þinga að ákveða, hvernig ábyrgð sveitarfjelaganna skuli vera hagað.

Jeg hjelt, að hjer mundi ekki verða um annað að ræða en torsótt peningalán, og var því mjög óánægður með frv. Þetta ákvæði er til mikilla bóta. Eftir þessu má landssjóður í raun og veru selja vörur undir verði, ef nauðsyn krefur. Það er auðvitað rjett að grípa ekki til þess nema í nauðsyn, en mjer þykir samt enn vanta á, að landssjóður skuli ekki hafa beina lagaheimild til þess að selja vörur undir verði. Það getur vel farið svo, að menn vildu fremur láta landssjóð tapa heldur en að fólk alment svelti, en börn og gamalmenni krókni úr kulda. Á því er hættan mest, og að því hlýtur að reka fyrir mörgum, að minsta kosti hjer í Reykjavík og fleiri kaupstöðum. Ef ófullnægjandi reynast ráðstafanirnar um mótekju og aðra eldneytisútvegun, þá verður landssjóður að láta af hendi kolin, hvað sem öllu endurgjaldi líður. Þessi heimild til að láta vörur af hendi að láni bætir mikið úr, þótt hitt hefði verið betra, að veita beina lagaheimild til að selja nauðsynjavörur undir verði. Þar sem þessi dýrtíð er ekki landinu sjálfu að kenna, þá er ekki til þess að hugsa nú að fylgja þeirri búmannsreglu að láta tekjur og gjöld standast á. Það er skiljanlegt, að þegar þjóðin er svo bágstödd, að menn verða að fá hjálp til þess að fleyta fram lífinu, þá er ekki hægt að leggja þung gjöld á á sama tíma. Það væri það, sem á latínu er kallað circulus vitiosus og þýtt hefir verið á íslensku »hringavitleysa«. Þegar svona stendur á, er ekkert hægt að gera annað en taka lán, sem koma yfir á eftirkomendurna. Það er auðvitað þeim í hag, að við lifum, og gerum þeim með því mögulegt að lifa, að minsta kosti þeim, sem orðnir eru til. Þótt frv. þetta sje ilt og ófullkomið, þá álít jeg samt, að stjórnin geti notast við það, til að koma í veg fyrir mestu vandræðin. En jeg verð að taka það fram, að það er leitt, að svona mistök skuli geta átt sjer stað á löggjafarþingi Íslendinga eins og nú í þessum dýrtíðarmálum. Það situr illa á Nd. Alþingis að vera með tregðu og í allra mestu vandræðum að koma sjer niður á dýrtíðarhjálp handa fátækum almenningi, en vera um leið að troða styrk upp á embættismenn landsins