12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

146. mál, almenn hjálp

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Það, sem olli því, að jeg gat ekki orðið meiri hluta nefndarinnar samþykkur, var, að mjer fanst misrjetti eiga sjer stað í brtt. hans.

Frv. veitir ótakmarkaða lánsheimild, eins og það kom frá Nd. Þar með finst mjer vera sjeð fyrir því, að neyð ætti ekki að geta átt sjer stað í landinu. Áður hefir oft verið gripið til þessa úrræðis, þegar í óefni hefir verið komið, en nú er hyggilegar farið að og ráð í tíma tekið. En hjer er beitt nýrri aðferð og ætlast til, að vara, er fjöldi manna notar ekki nema að litlu leyti, sje seld langt undir verði, sem kosta mun landið stórfje. Háttv. frsm. (K. E.) hjelt því fyrst fram, að þetta mundi kosta um hálfa miljón kr. Þetta er lík niðurstaða og jeg komst að, og mjer var legið á hálsi fyrir. En síðar segir hv. frms. (K. E.), að það muni kosta 280 þús. til hálfa miljón kr. En jeg er hræddur um, að það muni kosta mun meira en 280 þús., enda virðist það liggja nokkurn veginn í augum uppi, þar sem hver kolasmálest kostar nú 300 kr., og síðan á að gefa 175 kr. af verði hverrar smálestar, af samtals 2800 smálestum, og jafnframt er ætlast til, að kolin verði seld fyrir þetta verð, flutt á sem hentugasta staði, í kauptúnum landsins og kaupstöðum. Og hygg jeg eigi, að ofdjúpt sje tekið í árinni, þó að gert sje ráð fyrir, að flutningskostnaðurinn nemi 20 þús. kr.; mun kostnaðurinn þó samtals verða í minsta lagi hálf miljón kr.

En er þá óhætt að gera ráð fyrir því, að þessi kol lendi hjá efnaminstu mönnunum? Jeg fæ ekki sjeð, að nein vissa sje fyrir því. Jeg býst þvert á móti við, að þeir fái kolin, sem geta borgað þau, en hinum komi þau að engum eða litlum notum.

Hv. frsm. (K. E.) fór ekki svo hlýlegum orðum um sveitarstjórnirnar, þar sem hann sagði, að þær mundu ekki sjá ástæðu til að hlaupa undir bagga með fólki fyr en sæi á því af hor, að hann geti vænst þess af þeim, að þær úthluti þessari vöru rjettlátlega. Vjer getum sannarlega ekki treyst slíkum sveitarstjórnum, ef til eru, til að gæta þess rjettlætis, sem nauðsynlegt er í þessu efni.

Hv. frsm. (K. E.) neitaði því, að lánsheimildin mundi gera stórmikið gagn. En jeg hygg, þvert á móti, að ekki geti til þess komið, að neyð verði í landinu, ef lánið verður veitt með þeim góðu kjörum, sem gert er ráð fyrir í frv. Jeg tel sjálfsagt, að hver bæjar- og sveitarstjórn verði og sje skyld til að taka lán, ef á þarf að halda.

Háttv. frsm. (K. E.) gat þess og, að kolin mundu helst lenda hjá sjávarútveginum, enda hefði hann goldið mest í landssjóð. Þessu er því að svara, að ef sjávarútvegurinn hefir goldið meira fje í landssjóð en sveitarbúskapurinn, þá er það auðvitað af því, að hann hefir haft drýgri arð, og er því sjálfsagt, að hann beri þyngri byrðar. En þau hlunnindi fylgja líka þessum atvinnuvegi, að ef á bjátar, fer hann þegar fram á að fá fje úr landssjóði fyrir ekki neitt.