12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

146. mál, almenn hjálp

Fjármálaráðherra (S. E):

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál.

Um heimildina, sem veitt er í frv, er það að segja, að það getur verið gott að spara, en viss sparnaður er alls ekki leyfilegur. Jeg er sannfærður um, að ef hv. Alþingi skilst svo við þetta mál, að ekkert sje gert til þess að útvega fólki ódýrara eldsneyti, þá horfir hjer í landi til stórvandræða. Sumir munu að vísu treysta á móinn. En svo gæti farið, að fullbygt yrði á honum. Almenningi hjer í bæ er gersamlega ókleift að kaupa kol með því verði, sem þau eru nú í. Og jeg get vel skilið aðstöðu landsstjórnarinnar á komandi vetri, ef hún sæti með nægar kolabirgðir, en fólkið í kring væri að krókna af eldiviðarskorti og kulda. Jeg gæti búist við, að stjórnin ætti örðugt með að halda í kolin, ef svo væri ástatt.

Þessi miklu kolavandræði ná einkum til kaupstaðanna. En þótt þau snerti þá sjerstaklega, fæ jeg ekki annað sjeð en að landssjóður sje hreint og beint skyldugur til að hlaupa undir bagga með þeim, og vildi óska, að frv. færi svo gegnum þingið, að það sætti ekki mótmælum. Jeg þykist geta sagt það með góðri samvisku, að jeg hefi hvorki hallað á sveitirnar nje kaupstaðina í stjórnarstarfsemi minni. Jeg álít þvert á móti, að gott samkomulag milli sveita og kaupstaða sje mjög svo nauðsynlegt, og vildi styðja að því eftir mætti.

Þá skal jeg geta þess, að þótt kolaverðið yrði lækkað, skyldu menn ekki ætla, að það yrði svo aðgengilegt, að ekki sje nauðsyn á því, að sveitar- og bæjarstjórnir hlaupi undir bagga með fólki, ef vel á að vera.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hjelt, að fátækasta fólkið mundi ekki hljóta þessa hjálp, heldur þeir, sem hægast ættu með að borga kolin. En jeg verð að segja það, að jeg ber svo mikið traust til sveitar- og bæjarstjórna, að jeg hefi enga ástæðu til að ætla, að þær setji fátæklingana hjá. Enda mundu valdhafarnir verða varir við slíkt athæfi, ef það ætti sjer stað, og gæta þess, að engri sveitar- eða bæjarstjórn hjeldist slíkt uppi.

Jeg skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál; en það eru tilmæli mín, að háttv. Alþingi taki því vel, því að jeg veit, að það er stórkostlegur ábyrgðarhluti, ef því verður ekki hrundið í gott horf.