12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

146. mál, almenn hjálp

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kvað valt að treysta á móinn eingöngu. En þetta verður samt margur að sætta sig við.

Þá kvað hann (S. E.) það óþægilegt fyrir landsstjórnina að hafa birgðir af kolum og sjá fólkið samtímis krókna úr kulda í kringum sig, en er ekki sama að segja um matvæli og aðrar lífsnauðsynjar? En til þess þyrfti aldrei að koma, því að áður en í slíkt óefni væri komið myndi hver sæmileg bæjarstjórn eða sveitarstjórn hlaupa undir bagga með fólki í tækan tíma, með því að kaupa kolin og lána síðan þeim, sem á þeim þyrftu að halda; sje ekki óhætt að gera ráð fyrir þessu, gæti engu síður orðið misbrestur á rjettlátri úthlutun kolanna hjá þessum stjórnarvöldum.

Þá hjelt hann (S. E.) einnig, að sveitar- og bæjarstjórnum mundi ekki haldast uppi ranglæti í útbýtingu kolanna. Jeg hefi aldrei sagt, að svo hlyti að verða. En hitt sagði jeg, að ef ekki mætti gera meiri kröfur til sveitar- og bæjarstjórna en háttv. þm. Vestm. (K. E) gerði, væri ástæða til að væna þær um ranglæti. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hjelt, að þeim mundi ekki haldast uppi ranglæti, vegna eftirlits landsstjórnarinnar. Jeg held, að órjettlætið gæti komist langt áður en landsstjórnin fengi vitneskju um það og fyndist ástæða til að grípa í taumana.

Þá sagði háttv. þm. (K. E.), að í nál. mínu stæði, að kolin væru gefin, og þótti það órjettmæt ummæli. Það er, held jeg, auðvelt að rökstyðja það, að þau eru gefin; nokkur hluti þeirra er gefinn. En jeg hefi aldrei sagt, að þau væru öll gefin. Að hann getur ekki fundið annað að því en þetta má því teljast bestu meðmæli með því.

Þá hefi jeg svarað þeim athugasemdum, sem beint var til mín, og mun því ekki fjölyrða um þetta mál frekar.