12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

146. mál, almenn hjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg gat þess áðan, að sumir myndu, ef til vildi, treysta um of á móinn. Nú skal jeg geta þess, að koladýrtíðin er sjerstaks eðlis, að því leyti, að hún kemur einkum niður á kaupstöðunum, og tel jeg því eðlilegt, að landssjóður reyni að hjálpa þeim, sem harðast verða út undan. Og þó að svo verði, að landssjóður láti dálitla hjálp í tje, munu bæjarstjórnir gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að firra menn vandræðum.

Jeg skal enda mál mitt á að lýsa yfir því, að það mun verða sjeð um, að kolunum verði svo rjettlátlega útbýtt, sem frekast er kostur á.