12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

146. mál, almenn hjálp

Frsm. meiri hl. (Karl Einarsson):

Það er að eins stutt athugasemd um skýrsluna, sem fylgir nál.

Skýrsla þessi er þannig til orðin, að bjargráðanefnd Ed. bað stjórnina að útvega upplýsingar um það, hversu mikil kol mætti komast af með minst í hverju kjördæmi. Landsstjórnin bað síðan sýslumenn og bæjarfógeta að gangast fyrir þessum upplýsingum. Svörin komu tiltölulega fljótt aftur, og nefndin gat því látið þau fylgja skýrslunni. Hins vegar dylst nefndinni ekki, að kolaforðinn, sem hjer er ætlaður hverju kjördæmi, er í allra minsta lagi. Jeg get sagt það t. d. um Vestmannaeyjar, að þeim er ekki ætlað meira en ¼ á móts við þann kolaforða, sem þær þarfnast til eldsneytis. Hið sama hygg jeg að segja megi t. d. um Suður-Múla- og Norður- Múlasýslur. Og jeg geri jafnvel ráð fyrir, að víðast hvar á landinu sje það þannig. Og að því er til Reykjavíkur kemur, vitum vjer, að henni er ætlaður miklu minni kolaforði en hún þarfnast á venjulegum tímum.

En þetta ætti stjórnin að athuga, er hún útbýtir kolunum. Hún gæti auðvitað fengið nýjar skýrslur. En hún má vara sig á því, að furða sig ekki á, þó að tölurnar í þeim skýrslum yrðu hærri en í þessari.