14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

146. mál, almenn hjálp

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg vil leyfa mjer að fara fám orðum um breytingar þær, sem orðið hafa á frv., frá því að það fór hjeðan úr deildinni. Í 1. gr. hefir háttv. Ed. breytt ákvæðinu um það, hvað lánið mætti standa lengi, þangað til það væri að fullu greitt. Þegar frv. fór hjeðan úr deildinni, var ætlast til, að það skyldi greiðast á 10 árum. En í frv., eins og það liggur nú fyrir, er til ætlast, að lánið endurgreiðist á 13 árum, þó þannig, að það standi vaxta- og afborgunarlaust þangað til 2 ár eru liðin frá ófriðarlokum. Öll bjargráðanefndin hallaðist að þessu, því að hjer er að eins um nokkru vægari kjör að ræða, sem sanngjarnt væri að veita.

Höfuðbreytingin hjá háttv. Ed. felst í 3. gr., sem háttv. Ed. hefir bætt inn í frv. Þar er landsstjórninni veitt heimild til að selja bæjarstjórnum og sýslunefndum 2800 smálestir af kolum á 125 kr. lestina á staðnum þar sem kolunum er skipað á land. Ef þetta yrði gert, mundi það nema um 350,000 kr. fyrir landssjóð, ef kolalestin væri eftir sannvirði reiknuð 250 kr. Nú munu kol landssjóðs að vísu dýrari, en stjórnin mun eiga von á ódýrari kolum, svo að meðalverðið ætti að láta nærri þessu, síst verða hærra. Á þessu atriði klofnaði bjargráðanefndin, þrátt fyrir það, þótt hún öll finni sárt til vandræða almennings og báginda á þessum tímum. En hjer verður í tvö horn að líta; annars vegar er almenningur, sem varla sjer fram úr, hvernig hann fái bjargað lífinu, en hins vegar er landið, sem er orðið skuldum vafið, og óvíst um, hve gjaldþol þess endist lengi. Engum blandast hugur um það, að á þjóðinni hvíli sú sameiginlega skylda að bjarga fólkinu svo vel og lengi sem unt er; og nefndin þóttist í frv., eins og það fór hjeðan úr deildinni, hafa gert sitt til þess, með því að veita kost á lánum svo lengi, sem landið endist til, og skulum við vona, að ekki sverfi meir að en svo, að það verði ekki ráðþrota. Meðan menn eiga kost á að fá lán og matur fæst treinist þó lífið í mönnum, þótt ýmsir geti orðið skuldum vafðir.

Breyting háttv. Ed. á frv. er til bóta fyrir þá, sem kol þurfa að kaupa. En sá er galli á henni, að þessi hjálp kemur ekki að notum nema nokkrum hluta almennings, þar sem öll þjóðin stynur þó undir dýrtíðarfargi, og þótt verðhækkunin hafi orðið allra mest á kolum, þá kreppir þó skórinn víðar að, og þröng fyrir dyrum er víða í sveitum, eins og við sjó. Það hefir hist svo illa á, að þetta sumar hefir verið erfitt að mörgu leyti og veikt mótstöðuafl manna gegn dýrtíðinni.

Í sveitum hefir verið ótíð sumstaðar, og hey skemst í rigningum og eyðst af stormum, svo að hætt er við, að þar fari og að halla, þótt þær muni í bili standa betur en kauptún.

Að einu leyti er frv. þetta verra en frv. það, sem hjer var fyrir deildinni í sumar, og ákvað, að afsláttur væri gefinn á fleiri vörum en kolum einum; það kemur misjafnara niður og nær til færri.

Af þessu, sem jeg hefi hjer bent á, hefir minni hluti bjargráðanefndar ekki getað hallast að því að vera með 3. gr. frv., því að hann telur, að hjálpina megi veita eftir 1. gr. frv , sem kemur að líkum notum til að firra menn mestu vandræðunum, og það er höfuðatriðið. Sú hjálp skapar og minna misrjetti eða mismun á hjálpinni en frv.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vill láta afsláttinn ná til fleiri tegunda en háttv. Ed. Gengur till. hans að vísu í rjetta átt, en hitt er annað mál, hvort háttv. deild treystir sjer til að fara svo langt.