14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

146. mál, almenn hjálp

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get viðurkent, að í frv. þessu var, þegar það var afgreitt hjeðan til háttv. Ed., gerð nokkur tilraun til að bæta úr vandræðum, bæði með lánsheimildinni og heimildinni til að undirbúa ýms fyrirtæki. Og þótt jeg hafi aldrei haft það álit, að lánsheimildin gæti bætt svo mjög úr vandræðum, svo sem margir háttv. þingmenn hafa álitið, þá getur farið svo, að til hennar þurfi að grípa. Hitt álít jeg meira virði, að mönnum sje veitt atvinna, og getur það komið að talsverðu gagni, en nær þó ofskamt, því að það eru ekki nema sumir, sem geta haft gagn af því. Hingað til má segja, að ekki hafi þrengt mjög mikið að, en tíminn, sem nú fer í hönd, verður mjög erfiður, ekki einungis fyrir fátækasta fólkið, heldur líka fyrir þá, sem hingað til hafa komist sómasamlega af. Alstaðar annarsstaðar hefir verið gert eitthvað í þá átt að útvega sjerstaklega fátæklingum og miðlungsmönnum ódýrari vörur en eru á markaðinum. Það hafa víða orðið upphlaup til þess að heimta þetta. Í Danmörku hefir fyrir löngu verið hugsað fyrir því að útvega mönnum vörur með því verði, að þeir gætu keypt þær. Jeg álít sjálfsagt að fara þessa leið, eins og háttv. Ed. hefir nú lagt til.

Það hefir verið viðurkent í háttv. Ed., að með þessu frv. væri farið heldur skamt, en leiðin er rjett. Því að með því að heimila að selja kol undir verði er bætt úr þörfinni, þar sem hún er er mest. Þetta er augljóst af því, að þar sem flestar aðrar nauðsynjavörur hafa tvöfaldast í verði eða meira, þá hefir kolaverðið tífaldast eða meira. Það er alveg frágangssök fyrir fátæklinga og lágt launað fólk að kaupa kol til heimilisnotkunar fyrir 300 kr. eða meira. Þótt verðið væri nokkru lægra, væri það líka frágangssök. Jeg held, að það sje líka ókleift fyrir kaupstaðina að hjálpa fólki til að kaupa kol með þessu verði. Það er því sjálfsagt og rjett að heimila stjórninni að veita þessa hjálp, því að það er ómögulegt að komast af án kola í kaupstöðum og sjávarþorpum. Í sveitum þurfa menn ekki hjálp til kolakaupa, því að þar eru menn ekki miklu ver staddir með eldivið en vanalega, en við sjóinn verða menn ver úti.

Menn mega ekki metast um það, hvort allir verða aðnjótandi þessarar hjálpar eða ekki, því að á slíkum neyðartímum sem þessum verða menn að hjálpa hverjir öðrum. Þess vegna er fjelagsskapurinn, — þjóðfjelagsskapurinn. Ef sveitirnar segja við sjávarhjeruðin þegar þau eru illa stödd: Það kemur ekki mjer við, þá má segja, að sjávarhjeruðunum sje þá lítið gagn að fjelagsskapnum.

Það hefir verið viðurkent alstaðar um heiminn, að þjóðfjelaginu í heild beri að hlaupa undir baggann, svo að viðráðanlegt sje að kaupa nauðsynjar, en það hefir ekki verið gert hjer fyr, af því að neyðin hefir ekki enn krept svo mjög að, en það er ekki hægt að sjá annað en að svo verði í vetur. Hjer er ekki verið að biðja um svo mikla hjálp, að landinu yrði þungbært að veita hana, því að upphæðin, sem þarf til þessa, er sennilega ekki nema um 300 þús. kr. Og mikið af þessum kostnaði verður tekið að láni, og jafnað niður á fleiri ár, svo að kostnaðurinn verður ekki tilfinnanlegur.

Ef menn segja, að stríðið geti haldið áfram og ástandið orðið engu betra eða verra næsta vetur, þá er því til að svara, að nú er verið að byrja að afla innlends eldiviðar hingað og þangað í meiri mæli en áður, og næsta ár verður vonandi meiri árangur að þessari viðleitni en nú. Fyrir stjórnina er afarnauðsynlegt að hafa þessa heimild, og hún þyrfti að ná til fleiri vörutegunda, þótt því miður sje ekki um það að ræða hjer.

Jeg er alveg viss um, að ef þingið skilst við þetta mál, eins og það er nú komið frá háttv. Ed., þá mun þingmenn aldrei iðra þess.

Eins og háttv. þm. Dala (B. J.) tók fram þá er þetta ekki skaði fyrir landið, heldur gróði. Það er miklu heppilegra en að veita mönnum stórlán, sem þeir eiga mjög erfitt með að borga.

Jeg vildi mega mælast til þess við háttv. flm. brtt. á þgskj. 945, um að fella niður 3. gr., að þeir tækju hana aftur, eins og brtt. sína í næsta máli á undan. Jeg held, að það væri mjög vel gert, og það væri til að stytta þingtímann og spara þingkostnað, því að ef brtt. verður samþykt, hlýtur málið að fara í sameinað þing, og það má telja mjög líklegt, að frv. verði samþykt, eins og það liggur hjer fyrir. Mjer finst ekki eiga við að deila meir um þetta viðkvæma mál, og það er leiðinlegt að þurfa lengi að vera bónleiður fyrir þá, sem bágt eiga.