14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

146. mál, almenn hjálp

Sigurður Sigurðsson:

Jeg skal ekki vera langorður að þessu sinni, því að ekki er óhugsandi, að jeg þurfi að taka aftur til máls. Ástæðan til þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs, voru þau tilmæli hæstv. forsætisráðherra, að jeg tæki brtt. á þgskj. 945 aftur. Til þess að vera ekki með óþarfar málalengingar ætla jeg bara að segja: Hingað og ekki lengra. Við hinir sömu flm. tókum áðan aftur brtt. í öðru máli, og jeg skil ekki í, að við þurfum að vera þeir krossberar að gera það aftur í þessu máli. Jeg skal segja það í sambandi við þessa brtt. okkar, um að fella 3. gr., að við höfum ekki komið með hana af því, að við teljum þessa hjálp eftir handa því fólki, sem hennar þarf, heldur af því, að við efumst mikið um, að hún komi að tilætluðum notum. Stjórnin hefir áður kvartað um, að það væri erfitt að framfylgja því ákvæði, að gert skyldi upp á milli framleiðenda og þeirra, sem enga framleiðslu hefðu. En jeg get hugsað mjer, að það sje ekki síður vandi að úthluta kolum rjettilega. Þessi skifting er mjög vandasöm, og það gæti farið svo, að þeir nytu hjálparinnar, sem ekki þyrftu hennar við. Jeg vantreysti, með öðrum orðum, þeim, sem úthlutunina eiga að hafa á hendi, því að jeg hefi alla ástæðu til að ætla, að sú úthlutun fari í handaskolum. Þetta er líka mjög óviðfeldið og hættulegt ákvæði, þar sem vöruforðinn kemur ekki að notum nema litlum hluta þjóðarinnar. Þegar nú líka á það er litið, að verðið á kolunum verður hvort sem er svo hátt, að þeir fátækustu geta ekki keypt þau, er enn minni ástæða til að selja þau undir verði. Jeg hygg, að margir fátæklingar hjer hafi ekki gert ráð fyrir því, að þeir ættu kost á að fá kol, og hafi því reynt að afla sjer ódýrara eldsneytis, svo sem mós. Það hefir víða í kauptúnum og sjávarþorpum verið tekinn upp mór með langmesta móti. En þegar kolin koma með niðursettu verði, þá koma ótal margir, sem þykjast eiga rjett til að fá þau með því verði, og þá kemur spurningin um það, hverjir eru sannþurfandi. Af þessum ástæðum er jeg ófáanlegur til að taka brtt. mína aftur.