14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

146. mál, almenn hjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Mjer skilst, að vel mætti tala um tvennskonar dýrtíð, almenna dýrtíð, sem kemur nokkurn veginn jafnt niður á sveitum og kaupstöðum, og svo sjerstaka dýrtíð, sem bæirnir verða fyrir, sökum hins afarháa kolaverðs. Fyrir stríðið kostaði skippundið af kolunum liðugar 3 kr. Nú kostar það 50 kr. eða meira.

Jeg býst við því, að þótt sveitarfjelögum og bæjarfjelögum verði heimiluð lántaka til að bæta úr vandræðunum, þá verði það aðallega til þess að bæta úr almennu dýrtíðinni. Jeg hygg, að það muni reynast ofvaxið bæjarfjelögunum sjálfum að bæta úr sjerstöku dýrtíðinni, koladýrtíðinni. Hjer er um svo mikil vandræði að ræða, sem snerta alla, sem í kaupstöðum búa, að mjer finst fyllilega rjettmætt að lækka kolaverðið, eins og farið er fram á í frv., eins og háttv. Ed. hefir gengið frá því. Það er meira en rjettmætt, það er alveg sjálfsagt að gera það, eins og nú er ástatt.

Mjer hefir oft verið brugðið um það, að jeg dragi fremur taum sveitanna en bæjanna. Þessi aðdróttun er ekki rjettmæt. Jeg þykist altaf vilja halda jafnvægi þar á milli, bæði í álögum og hlunnindum. Jeg skal fúslega játa það, að þessi lækkun á kolaverðinu kemur sveitunum, sem slíkum, mjög lítið að góðu. En hitt verð jeg líka að viðurkenna, að þessi sjerstaka dýrtíð er svo alvarleg, að jeg er viss um, að sveitirnar taka það ekki illa upp, þótt kaupstöðunum sje veittur þessi styrkur. Jeg veit ekki, hvernig fer í vetur, þegar kuldarnir koma og fólkið á ekkert til að hita með eða elda við matinn, og nóg er þó til af kolum í bænum. Jeg veit ekki, hvernig því yrði tekið, ef stjórnin ætlaði að halda kolunum fyrir fólkinu, þegar kuldinn sverfur að. En það er sama sem að halda kolunum, ef verðið er svo hátt, að enginn getur keypt þau nema efnaðir menn.

Nú má að vísu segja, að bæjarstjórnin mundi skerast í leikinn og útvega lán, svo að hún geti hjálpað mönnum til að fá kolin fyrir lægra verð. Það má vel vera, að bæjarstjórnin yrði svo forsjál að láta bæinn kaupa kolabirgðir handa fátækara fólkinu, en því er varlega treystandi, að hún sæi sjer það fært. Jeg hefi ekki orðið var við, að bæjarstjórnin hafi gert annað en að taka upp móinn. Jeg hefi ekki orðið þess var, að hún hafi farið þess á leit við þingið, að það gerði neitt í þessu afarmikla alvörumáli bæja og kauptúna. Það, sem vakið hefir mestan úlfaþytinn hjer í bæ, eru þær ráðstafanir, sem gera átti til þess að spara kolin og gera mönnum hægra fyrir með að fá húsnæði.

Þegar talað er um að fresta skólahaldi um nokkurn tíma, þá rís upp sterk alda á móti því, og borgarafundur er kallaður saman til mótmæla. En það er ekki verið að kalla saman borgarafund til að heimta það, að fátæklingunum sje hjálpað til að ná í kol næsta vetur.

Þegar talað var á móti skólalokuninni, þá var því borið við, að það væri gert vegna fátæku barnanna. Þeir, sem hrópuðu hæst um þetta um daginn, mættu nú hrópa hærra um fátæku börnin. Ef ekkert verður gert í þessu máli, þá fá menn að þola hróp fátækra barna hjer í bæ. Í sveitunum

skilja menn, hvílíkur voði hvílir yfir þessum bæ, ef fátæklingunum er neitað um kol til eldiviðar. Það er ekki einungis voði fyrir núlifandi kynslóð, heldur gæti það haft áhrif á komandi kynslóðir langt fram í tímann. Þessi áhrif eru langtum alvarlegri og djúptækari en menn hugsa sjer.

Jeg hefi oftast átt samleið með fulltrúum sveitakjördæmanna hjer á þingi. Mín skoðun er yfirleitt miklu nær þeirra skoðun í mörgum málum. En jeg er alveg sannfærður um það, að margir menn úti um land fallast algerlega á þá skoðun, sem barist er fyrir hjer á Alþingi í dag, að hjálpa til að lækka kolaverðið. Það verður ekki alment talið eftir, þótt lagt sje fram fje úr landssjóði til að styðja þá, sem í mestu vandræðunum lenda. Jeg er sannfærður um það, að það væri hið mesta ranglætisverk, ef þingið skildi án þess að gera eitthvað í þessu vandræðamáli. Það sýnir sig, þegar veturinn kemur, sem flestir bera mikinn kvíðboga fyrir. Jeg hefi átt tal við nokkra af fátækari mönnum þessa bæjar, og þeir hafa sagt, að þótt þeir sæju fram á mjög mikla erfiðleika á því að afla matar handa heimilum sínum, þá væri það þeim ekki mesta kvíðaefnið. Mest kviðu þeir fyrir því að horfa á börnin veslast upp af kulda. Það væri voðalegt skilningsleysi af Alþingi Íslendinga, ef það sæi ekki, hvað um er að ræða, — ef það vill vinna það til fyrir 300,000 kr. sparnað að skilja gamalmenni og börn eftir í kuldanum. Jeg er viss um, að það yrði ekki þakkað í sveitakjördæmunum. Jeg er sannfærður um það, að ef sveitamennirnir væru spurðir um, hvað gera skyldi, þegar fátæklingarnir í kaupstöðum hrópa og biðja um kol, þá mundi kveða við utan af landsbygðinni: Láttu þá fá kol. Stundum hefir verið tekið undir úti á landsbygðinni, þegar þannig hefir verið hrópað. Jeg er sannfærður um það, að sveitamenn sjá, að hjer er um rjettlætiskröfu að ræða. Þingið getur ekki hlaupið frá þessari kröfu. Stjórnin getur ekki annað en tekið hana til greina, hvað sem þingið segir. Þegar kuldinn sverfur að, þá getur hún ekki daufheyrst við þeim hrópum um hjálp, sem til hennar mundu berast. Eða hvað ætti fólkið að taka til bragðs? (E. J.: Getur það ekki tekið lán?) Það má segja, að þá megi láta það hafa lán. En sú leið er ekki heppileg að lána altof mikið af vörum landssjóðs. Það er ekki svo lítið fje, sem er bundið í landssjóðsversluninni, og ef það væri tekið upp að lána mjög mikið af vörunum, svo að lítið kæmi inn fyrir þær, þá gæti svo farið, að erfitt yrði að halda versluninni gangandi í góðu horfi. Jeg er sannfærður um það, að frá fjárhagslegu sjónarmiði er hyggilegra að færa kolaverðið niður heldur en að byggja á því, að stjórnin kasti þeim út að láni. Jeg skal líka taka það fram, að þótt kolaverðið verði fært þetta niður, þá verður það samt ekki ákaflega auðvelt fyrir fátæklingana að kaupa þau með því verði. Bæjarsjóðirnir munu samt verða að hlaupa undir bagga, og það mun verða nógu víða fyrir því, sem til þeirra kasta kemur að hjálpa. Jeg er því alveg viss um það, að fjárhagslega sjeð er það það besta, sem þingið getur gert, að veita þessa takmörkuðu niðurfærslu á kolaverðinu, til þess að koma í veg fyrir meiri niðurfærslu.

Jeg ætla svo ekki að fara fleirum orðum um þetta mál. Jeg álít, sem sagt, að Alþingi vinni mikið ranglætisverk, ef það tekur ekki þessa kröfu til greina. Á leið stjórnarinnar verða nógu margir örðugleikar á þessum tímum. Jeg held, að Alþingi ætti ekki að bæta þessu við.