14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

146. mál, almenn hjálp

Einar Jónsson:

Jeg ætla ekki að tala með jafnmiklum vindi sem hæstv. fjármálaráðherra

(S. E.). Þetta mál þarf rólega og stillilega yfirvegun. Það þarf að athuga það fyrst og fremst, að hjálpin komi jafnt niður. Jeg fyrir mitt leyti verð að telja frv. best í því formi, sem það var í síðast hjer í Nd., en til spillingar breytingar þær, sem Ed. hefir gert, og nú eru þrætur og stífni um hjer. Lánsheimildin er í mínum augum það besta horf, sem hægt er að koma málinu í, en þessi afsláttur, sem ráð er fyrir gert í 3. gr., er þannig lagaður, að hann getur ekki komið öllum almenningi landsins að notum. Jeg skal síst neita því, að kaupstaðirnir muni helst þurfa hjálpar við í þessu, en jeg á það engan veginn víst, að fátæklingar einir verði þessara hlunninda aðnjótandi, heldur jafnvel býst jeg við, að ríkisbubbar komist þar líka að. Nú mega menn vita það, að víða um land, einnig í kaupstöðum, sem jeg þekki, hafa menn lagt mikið í það að afla eldsneytis, og þá vitanlega að sama skapi forsómað aðra vinnu. En ef svo færi nú, að forríkir menn yrðu þessara hlunninda aðnjótandi, þá er ekki rjett að farið, og mig vantar sönnun fyrir því, að svo geti ekki orðið. En svo að jeg snúi aftur að því, sem jeg sagði áðan, að menn sumstaðar mundu í sumar hafa forsómað vinnu, til þess að geta aflað eldsneytis, þá nær það ekki til Reykjavíkur nje Vestmannaeyja, og þá er það athugandi, að menn hjeðan hafa farið í vellaunaða vinnu víðs vegar um landið, svo að þeir hafa jafnvel betra kaup en vjer þingmenn, sem menn sjá af því, að kaupamenn fá 6 kr. á dag og alt frítt. Það hefir verið gefið í skyn, að fátækt eða jafnvel neyð stæði fyrir dyrum í Reykjavík og kaupstöðunum. Jeg held þá, að hægt sje að sanna, að sama muni einnig eiga sjer stað í sveitunum. Jeg hefi hjer í sumar víða komið í hús til manna, bæði ríkra og óríkra, og altaf verið borinn sykur, þegar jeg hefi fengið kaffi, en mjer er kunnugt um það, að víða brúka bændur engan sykur með kaffinu, og að þá skortir einnig mjöl. Þess vegna hefði mjer þótt betri brtt. háttv. þm. Dala. (B. J.), sem ekki var leyft að koma til umræðu eða atkvæðagreiðslu. Þá mundi meiri jöfnuður hafa komist á. En því er nú ekki að heilsa.

Jeg álít, að stjórnin hefði átt að gera meira til að afla íslenskra kola en gert hefir verið. Það hefir nú verið skýrt frá því, að nú eigi að fara að leggja meiri krafta í framkvæmd þess en hingað til hefir verið gert, svo að þessi afsláttur á kolunum eigi ekki að gilda nema stuttan tíma. Jeg get ekki annað en verið þakklátur fyrir einhverjar framkvæmdir í þessa átt, þótt seint sje.

Það hefir verið minst á skólafrestunina í sambandi við kolin. Það er nú orðið svo margt, sem í vandræðum lendir út af kolunum. Og úr því að einhver hæstv. ráðherra mintist á skólana og að loka þeim, þá mun mjer fyrirgefast, þótt jeg láti í ljós þá skoðun mína, að nær mundi að loka bíóum og leikhúsum. Og sannast að segja, furðar mig á því, eins og stjórnin hefir verið röggsamleg í að innleiða svo margt þarft og útrýma svo mörgum óþarfanum, að hún skuli þá ekki hafa gert ráðstafanir til þess að loka slíkum stofnunum, því að alt má þetta skoðast dýrtíðarráðstöfun. Jeg veit ekki, hvað mikið fje þessi bíó gefa af sjer, en »full« eru þau kvöld eftir kvöld, og má auðvitað vera, að þangað rennur margur skildingur úr vösum fátæklinganna.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að fátæklingum mundi því nær ókleift að kaupa kolin, þótt sett yrðu niður í 20 kr. skippundið. Jeg er á sömu skoðun, en þá er líka vafasamt, að rjett sje að samþykkja greinina, og getur þá verið hyggilegast að afstýra vandræðum, hjer í Reykjavík, sem annarsstaðar, með lánsheimild. Jeg skal í því sambandi geta þess, að háttv. þm. Dala. (B. J.) kemur mjer ekki til að trúa því, að það sje billegri leið að láta af hendi kol með afslætti en að lána mönnum peninga, jafnvel þótt lánin yrðu upp gefin. Lánin eru betri leið og koma jafnara niður, sem er aðalatriðið, heldur en ívilnun á vörum, sem að eins falla í skaut nokkrum hluta landsbúa.

Úr því að hjer er um dýrtíðarráðstafanir að ræða, get jeg ekki látið vera að geta þess, að grein, sem birtist í »Vísi« í gær, undirrituð »Bóndi«, er einungis blekking; mjer er kunnugt um, að hún er skrifuð af embættismanni í Árnessýslu, og vil undanþiggja alla bændur í Árnessýslu frá að skrifa svo. En þar með er ekki sagt, að bændur sjeu andvígir því, að embættismönnum sje veitt einhver dýrtíðaruppbót innan hæfilegra takmarkalína.

Að öðru leyti mun jeg sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þetta mál.