14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

146. mál, almenn hjálp

Gísli Sveinsson:

Jeg var í öndverðu þeirrar skoðunar, að sú leið, er farin var með því frv., er var afgreitt hjeðan frá hv. deild, um almenna hjálp vegna dýrtíðarinnar, væri ófullnægjandi og hvergi nærri heppileg. Jeg vildi, að í staðinn fyrir að lána þá ætti landssjóður að veita beina peningahjálp, þar sem auðsætt væri, að óhjákvæmileg neyð vegna ófriðarástandsins stæði fyrir dyrum, er ekki yrði öðruvísi af ljett. Menn fundu það þessu til foráttu, að sveitarstjórnir þær, er hlut ættu að máli, myndu ekki koma fram sem óvilhallir milliliðir, heldur mundi hver sveit, ef til vill að óþörfu, reyna að ná sem mestu af fje til sín. Mjer heyrist nú, að menn beri öllu meira traust til sveitarstjórna en þá kom fram. Vitanlega hefði mátt haga þessu á þann veg, að sveitarstjórnir greiddu eitthvað af þessum styrk aftur, þó að þeir, sem hjálparinnar nytu, gerðu það ekki. En eins og nú er komið, og fyrst að mín uppástunga var ekki tekin gild, þá er hitt víst, að það ber að nota þessa lánsleið eins og hún er, svo að komi að sem mestu gagni. Jeg var á móti þeirri till., að vörur landssjóðs yrðu seldar undir verði jafnt til allra, hvort sem þeir væru efnaðir eða fátækir, þegar hún var hjer til umræðu. Og jeg verð að segja, að þó að þetta innskot sje nú komið fram um kolin, sem háttv. Ed. hefir gert, þá sje jeg ekki, að með því sje eins mikil bót á ráðin og orð er á gert. Víst er, að þetta á að kosta landssjóð ef til vill mörg hundruð þús. kr. Mig furðar á öllum þeim ræðufjálgleik, sem þetta kolamál hefir komið af stað. Það er rjett eins og það sje það happaráð, sem öllum geti bjargað, og það eina, sem komi að nokkru verulegu haldi. Þetta virðist mjer vera að gera úlfalda úr mýflugunni. Því að jeg get ekki skilið, að þeir, sem á annað borð eru komnir í kaldakol, eða orðnir allslausir, geti bjargað sjer út úr neyðinni með því að fá að kaupa kolaskpd. á 20 kr.; það er ofvaxið mínum skilningi. En þetta mun vera meiningin, því að það er ætlast til, að landssjóður selji smálestina á 125 kr., sem svarar til þess, að skpd. verði á nálega 20 kr. Svo eiga sýslufjelög og bæjarfjelög eða kaupstaðirnir, því að þetta kemur þeim helst til góða, að selja aftur, líklega þeim, sem verst eru staddir, hagnaðarlaust. Það stendur að vísu í niðurlagi 3. gr., sem hjer er við átt, með leyfi hæstv. forseta:

»Sýslu- og bæjarfjelög selja kol þessi aftur, án hagnaðar, þeim, er helst þurfa hjálpar með, og má vera mismunandi verð á þeim, eftir ástæðum kaupanda.«

Þetta er dálítið óljóst orðað, en það virðist þó benda til þess, að selja megi með hagnaði þeim, sem eitthvað eiga til.

Það hefir verið komist svo að orði um þetta atriði, að hjer væri um svo mikið alvörumál að ræða, að menn mættu ekki rísa upp á móti því. Jeg sje, satt að segja, ekki, að þetta bjargi svo miklu, að sjálfsagt sje að greiða því atkv. sitt. Jeg held, að þessi till. sje ekki komin hjer fram með það fyrir augum að bæta úr þar, sem neyðin er mest, heldur hafi hitt vakað fyrir mönnum, að afla sýslu- og bæjarfjelögum ódýrra kola til úthlutunar. Eins og ákvæðið er þá er ekki sýnilegt, að það hjálpi endilega þar, sem mest er þörfin. Það er ekkert heldur tekið fram, hvernig þessari úthlutun skuli hagað, svo að það er ekki loku skotið fyrir það, að þeir, sem á annað borð líða neyð, fái að sitja þar, sem þeir eru komnir, og að kolin verði notuð í skrifstofur eða skóla kaupstaðanna o. s. frv. Hjer getur nú ekki verið um það að ræða, að landsstjórnin hafi eingöngu á hendi dýrustu kolin, á 300 kr. smálestina, því að jeg tel sjálfsagt, að hún komi brátt til að hafa kolabirgðir liggjandi hjer á höfninni fyrir 200 kr. smálestina. Hv. þm. vita, eins og jeg, að svo er í garðinn búið. Mjer skilst, að hún ætti þá að sjá sjer fært að selja þau kol sýslu- og bæjarfjelögum fyrir það verð; og eftir þeim till., er hjer hafa verið samþyktar um lánveitingar og þvílíkt, þá mundi það geta komið að nokkrum notum úti um land. Það gæti komið til mála, að landsstjórnin seldi þau dálítið dýrara, hjer í Reykjavík og annarsstaðar, þeim, sem geta keypt þau dýrara. Ef bæjarfjelaginu hjer er á annað borð treystandi til að halda lífinu í borgurum sínum, þá efast jeg ekki um, að það muni kaupa þessi kol á 200 kr. smálest eða nokkru meira, og selja þau ekki aftur fyrir okurverð, heldur jafnvel blátt áfram gefa þau, ef og þar sem á þarf að halda. Jeg vil í þessu sambandi vitna til þess, sem menn hafa mikið talað um hjer, hvað Danmörk hafi gert. Og þar er það aðalatriðið, að sýslu- og bæjarfjelögum er heimilað að selja vörur undir verði, eða gefa þeim bágstöddustu, en síðan tekur sjálft ríkið einhvern þátt í því skakkafalli, sem af þessu leiðir. En vitanlega eiga sýslu- og bæjarfjelög að annast sína borgara sjálf, svo langt sem þau ná og meðan þau geta.

Hjer var í dag afgr. frá háttv. deild frv. um tekjuskatt, nokkra hækkun á honum, þar sem fjárhagsnefnd fjell frá kröfum sínum, á þann veg, að stórgróðamenn sluppu undan því að greiða þann skatt af gróða sínum, ekki einungis frá árunum 1914—15, heldur líka 1916. Þessa menn er nú einkum að finna í kaupstöðum, og þá helst hjer í Reykjavík og grend, þar sem selja á einkanlega þessi kol undir verði. Þegar nú litið er til þess, að þessum mönnum hefir verið hlíft meir en viðgengist hefir með öðrum þjóðum, þá vil jeg spyrja, hvort þeir sjeu ofgóðir til þess að láta þeim mun meira af hendi rakna til bæjarfjelaganna, þar sem ástandið er verst, svo að þau geti alið önn fyrir borgurum sínum. Jeg svara þessu hiklaust neitandi, og svo mun vera um fleiri.

Þegar háttv. Ed. þm. beittu því ofríki með hótunum sínum, að við neyddumst til þess að taka aftur brtt. okkar, þá er þetta mál komið í það horf, að kaupstaðarbúar verða að hafa augum opin og taka vel eftir því, sem hjer er að gerast. Bæjarfjelagið hjer verður að vera sjer þess meðvitandi, að þessum mönnum var slept með það fyrir augum, að þeir yrðu að bera sinn skerf af dýrtíðinni í sínu bæjarfjelagi.

Með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er landsstjórninni heimilað að veita bæjar- og sýslufjelögum lán með betri kjörum en áður hefir þekst, það er að segja, þau eiga að standa vaxta- og afborgunarlaus þar til 2 ár eru liðin frá ófriðarlokum, og eiga þá að greiðast á næstu 13 árum með 10% árlegri afborgun. Jeg tel nú engu sýslu- eða bæjarfjelagi ofvaxið að færa sjer þetta í nyt, og það mun þingið ekki heldur hafa gert, er það samþykti þetta. Hjer er að tala um einstök kostakjör, sem mönnum eru veitt, til þess að ljetta undir með þeim. En hvað hamlar þá því, að menn noti einmitt þessi aðgengilegu lán til þess að kaupa kol fyrir á 200 kr. smálest og selja þau síðan litlu verði, eða jafnvel gefa þau, ef brýn nauðsyn er til? Og enn fremur, að þau neyti skattaálögurjettar síns til að jafna niður aukaskatti eða útsvari á menn eftir efnum og ástæðum, eins og lög líka mæla fyrir? Jeg tel sjálfsagt, að byrjað sje á því að láta sveitar- og bæjarfjelög bera byrðarnar, þar sem hægt er, en síðan kemur til kasta landssjóðs eftir á. Hlutdeild hans í þessu atriði er líka talsverð að öðru leyti eftir frv., því að hann verður að hafa mikið fje bundið og á reiðum höndum og svara af því fullum vöxtum, sem hann má ekki krefja af lánþega. Auk þess heyri jeg, að það standi til að gefa eftir svo og svo mikið af þessum lánum seinna meir, eða fyrir þessu gera ýmsir þm. að m. k. fult og fast ráð. Af þessum ástæðum finst mjer harla ómaklegt að tala hátt um það, hversu nauðsynlegt sje að selja t. d. kaupstöðum kol fyrir 125 kr. tonnið, sem ella kostar nú 300 kr. Þeim, sem engan veg sjá til þess að geta hitað upp hjá sjer eða eldað ofan í sig matinn, á að selja þessi kol, eftir því sem menn láta á sjer heyra. Jeg hjó eftir því í ræðu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að hann sagði, að það væri alveg sama að gefa sýslu- og bæjarfjelögum kost á að kaupa kol með því verði, sem þau eru í, eða segjum fyrir 200 kr. tn., og að neita þeim um kolin. En aftur ætti þá hitt að vera leikur að kaupa þau á 125 kr. tn. Þetta sjá allir, að nær ekki nokkurri átt.

Ef átt er hjer við aumingja, sem ekki eiga málungi matar, þá er þeim alveg jafnómögulegt að kaupa kol fyrir nálega 20 kr. skpd. eins og þótt það kostaði alt að 35 kr. skpd. Þetta er því ekkert annað en kák og nær auðvitað að eins til kaupstaðabúa, eins og þegar hefir verið tekið fram, svo að ærnu misrjetti er af stað komið með þessu. Svo framarlega sem kæmi til þessa, að menn yrðu svo báglega staddir, að á kaldan klaka væru komnir, þá ræki að því, sem mín till. fór fram á, að landssjóður hlypi undir bagga með mönnum með hreinum og beinum gjöfum. En um það er nú ekki að tala hjer að fara svo beinan veg, heldur vilja menn nú, að landssjóður beri gjafir á nokkurn hluta landsmanna, með því að selja þeim kolin langt undir verði.

Jeg þykist nú hafa gert fulla grein fyrir atkv. mínu í þessu máli, hvers vegna jeg mun greiða atkv. með því, að 3. gr. verði feld burt úr frv. Jeg get ekki tekið undir með þeim mönnum, sem líta svo á, að kaupstaðar- eða bæjarbúar sjeu svo að segja staddir á eyðimörku og eigi engan að, sem fyrir þeim sjái. Jeg veit ekki betur en að þeir sjeu líkt staddir og aðrir hjeraðabúar í þeim efnum, og hafi yfir sjer bæjarstjórnir, eins og hinir sýslunefndir. Reykvíkingur þarf ekki fremur að deyja drotni sínum en aðrir, þótt hallæri sje. Og þó að menn t. d. beri ekki ýkja mikið traust til bæjarstjórnarinnar, þá hygg jeg þó, að hún muni nokkurn veginn annast sína borgara og sjá þeim farborða. Það verður að vera svo, að fyrst og fremst sjeu það sveitarfjelögin og bæjarfjelögin, sem sjái um hag þeirra, er þeim til heyra, því að það stendur þeim ómótmælanlega næst.