14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

146. mál, almenn hjálp

Sveinn Ólafsson:

Örstutt athugasemd. Jeg hefi ekki neitað, og ekki einu sinni látið uppi vafa um það, að sveitarfjelögin alment þyrftu hjálpar með. Ekki hefi jeg heldur á nokkurn hátt viljað draga úr því, að kaupstöðum væri veitt sú hjálp, sem þeim er þörf á. En jeg hefi sagt, að jeg vildi ekki vekja óánægju meðal almennings með því að hjálpa þannig, að sumir tækju hlut á þurru landi, en aðrir væru afskiftir.

Af því að bent hefir verið á, að mitt kjördæmi væri vel sett í þessu efni og nyti hlunninda af þessu ákvæði um kolasöluna, þá verð jeg að segja, að misrjettið er alveg það sama, hver sem fyrir því verður, og jeg kannast ekki við, að verk mitt sje að mæla mínu kjördæmi einu þau forrjettindi, sem meiða aðra. Enginn getur heldur fullyrt, að þessi kol verði til í fjarlægum landshlutum, þegar nota þarf, þótt þeim verði útbýtt hjer í Reykjavík, og mætti þá svo fara, að mínu kjördæmi yrði með þessu sýnd veiði, en aldrei gefin; auk heldur gæti vonin um þessi gjafakol orðið til ills, ef hún brygðist, og enn eru kolin ókomin, þótt vetur sje að ganga í garð.