08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Jeg ætti ekki að þurfa að vera langorður í þetta sinn. Brtt. nefndarinnar hafa ekki sætt neinum verulegum mótmælum, en hins vegar hafa ýmsir háttv. deildarmenn látið það í ljós, að þeir væru þeim fylgjandi. Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að hann væri sjerstaklega þakklátur fyrir brtt við 18. gr. Þetta er að vísu engin efnisbreyting, en eingöngu orðabreyting, sem betur þótti fara á. Hins vegar var svo að heyra á hæstv. atvinnumálaráðherra, að honum þætti miður um 1. brtt. nefndarinnar um lækkunina á póstflutningi. En um hana er það annars að segja, að þetta er einungis áætluð upphæð, sem vitanlega þokast til eftir ástæðunum, svo að það er engin hætta á ferðum, þótt hún sje færð niður. En á hina hliðina var uppfærslan, sem stjórnin gerði í frumvarpinu, gerð sem dýrtíðaruppbót. Sje hún numin hjeðan burt, færist hún yfir í sjálft dýrtíðaruppbótarfrumvarpið. Og það þótti nefndinni viðkunnanlegra.

Um brtt. hæstv. atvinnumálaráðherra, sem fer fram á að hækka laun póstafgreiðslumanna, get jeg lýst yfir því, að nefndin í heild sinni er ekki á móti henni. Hins vegar get jeg ekki ábyrgst, hvernig atkvæði hvers einstaks nefndarmanns um hana kunna að falla. Það er rjett hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að póstmeistarinn hefir farið fram á það, að afgreiðslumenn fengju laun sín miðuð við tillögur milliþinganefndarinnar. Og fjárveitinganefnd Nd. bar fram brtt. um, að laun þeirra yrðu hækkuð, svo sem þar er stungið upp á. En brtt. sú var feld, og vildi nefndin hjer þess vegna ekki taka hana upp í sama formi, því að hún bjóst við, að hún yrði þá aftur feld í háttv. Nd. Nú hefir hæstv. atvinnumálaráðherra farið nokkurskonar milliveg með breytingu þessa, svo að ekki er víst, að hún eigi aftur sömu afdrifum að mæta í háttv. Nd. Jeg álít þess vegna, að óhætt sje að samþykkja hana hjer, og geri ráð fyrir, að háttv. Nd. geti fallist á það. En yfirleitt vildi jeg, að ekkert kæmist hjer að, sem líklegt væri til þess að valda ágreiningi á milli deildanna hjeðan af, svo að fjárlögin þyrftu eigi að fara í sameinað þing, er ekki mundi leiða til neins sparnaðar.