03.09.1917
Efri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

150. mál, dósentsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það er að eins af þeirri venju, að það er álitið viðkunnanlegra að mæla fáein orð með frv., að jeg stend upp. En annars liggur það í hlutarins eðli, að jeg hefi enga sjerþekkingu til að dæma um nauðsynina á kennaraembætti því, sem hjer er farið fram á að stofna, en það er hv. deild áður kunnugt, að rök hafa verið færð fyrir nauðsyn á kenslu í þessum fræðum, líffærameinfræði og sóttkveikjufræði, og í öðru lagi álít jeg, að það muni eigi geta talist óþarft að auka kenslukraftana við læknadeild Háskólans yfir höfuð.

Eins og jeg sagði áður hafa verið færð rök fyrir nauðsyn þessa kennaraembættis, og hefir þingið sjálft viðurkent þessa þörf, með því að það hefir áður, í núgildandi fjárlögum, veitt sjerstaklega fje til að halda uppi kenslu í þessum greinum, og í fjárlagafrv., sem nú er fyrir þinginu, hefir háttv. Nd. samþ. sömu upphæð. Hjer er þess vegna ekki farið fram á neina fjáraukningu við það, sem áður hefir verið viðurkent að þyrfti í þessum efnum. Þetta frv. miðar til þess eins að setja nokkurskonar »stimpil« á þennan kennara, viðurkenna hann sem reglulegan kennara við Háskóla Íslands. Annað er það ekki, sem í því felst.