18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Jörundur Brynjólfsson:

Háttv. frsm. (M. G.) hefir fært þá ástæðu fyrir frv. þessu, að landssjóður þurfi tekjuauka, og því neitar enginn. En jeg tel vandræði að grípa til þessa úrræðis til að fá tekjuauka. Þetta frv. gerir þeim, er gefa út bækur og blöð, mun erfiðara fyrir en áður. Nú hefir mönnum um langt skeið fundist nógu hátt gjald borgað fyrir sendingu blaða og bóka, og síðan dýrtíðin hófst hefir nærri tekið fyrir útgáfu allra bóka. Að eins hafa þau tímarit haldið áfram, er koma eiga út á ákveðnum tímum. Það verða útgefendur að sjá um, því að ella leggjast þau niður fyrir fult og alt. Og ef þau hætta að koma út, þótt ekki sje nema um stund, má búast við, að þau tapi öllum sínum kaupendum, og útgefendur stórskaðist. Þetta gjald, sem nú er á sendingum, er svo hátt, sjerstaklega að vetrarlagi, að útgefendum mundi ókleift að greiða hærra gjald. Pappír er í 4falt hærra verði en fyrir stríðið. Prentun hefir hækkað; kaup prentara um 100%, og annar prentunarkostnaður eftir því. Menn geta því sagt sjer sjálfir, hvernig muni hagur þeirra, er gefa út blöð og tímarit. Nú er það alveg víst, að bækur og blöð hafa ekki hækkað að sama skapi og dýrtíðin hefir aukist. Held jeg, að þetta frv. sje afar óheppilegt, því að þótt gert sje ráð fyrir, að það útvegi landssjóði dálitlar tekjur, orkar mjög tvímælis, hve notadrjúgt það verður. Ýmsir myndu hætta að gefa út bækur og tímarit, og er þá tekið fyrir tekjuaukann af því og tekjurnar, sem landssjóður hefir haft af þeim áður, en aðalástæðan er þó að afla landssjóði tekna.

Auk þess sýnist svona frv. mjög ómaklegt. Mjer finst, að löggjafinn megi ekki gera neitt í þá átt að draga úr fræðslu eða bókaútgáfu í landinu. Þjóðin er ekki ofvel mentuð, þótt löggjafarvaldið geri ekki tilraun til að draga úr fræðslu og bókaútgáfu.

Jeg vildi skjóta því til háttv. fjárhagsnefndar, hvort hún teldi ekki hægt að undanskilja þessari gjaldhækkun bækur og tímarit, en láta hækkunina að eins ná til böglasendinga og brjefa.