18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Fjármálaráðherra (B. K.):

Síst ætti jeg að vera á móti því, að allra ráða væri leitað til að auka tekjur landssjóðs. Það er auðsjeð, að tekjuþurð verður á þessu ári. Þótt því full þörf sje að auka tekjurnar, er jeg samt mjög í efa um, að þetta frv. bjargi því. Jeg er hræddur um, að þótt gjaldið væri tvöfaldað, myndu tekjurnar af þessum lið ekki aukast um helming. Það er t. d. reynsla um símann, að því lægra sem gjaldið er, þeim mun meir er síminn notaður. Og jeg álít ekki holt að takmarka brjefaviðskifti og blaða í landinu. Jeg held rjettara að fara varlega í það. En jeg geri ráð fyrir, að ef þetta frv. væri að eins látið ná til brjefa, þá myndu þær tekjur nást Jeg held, að menn myndu skrifa brjef, þótt þeir yrðu að gjalda undir það 20 au., í stað 10 au. En jeg er hræddari við, að blaða- og bókakaup myndu minka mikið. Það er satt, að verð á sumum blöðum hefir verið hækkað nokkuð og þau verið keypt áfram fyrir því, en svo má hækka mikið, að menn færu að sjá í aurana og hættu. Jeg held því, að háttv. fjárhagsnefnd hafi gert sjer meiri vonir um tekjur af frv. þessu en ástæða er til í raun og veru. Jeg held, að ef það væri að eins látið ná til brjefa, myndu þær tekjur koma.

Annars hefi jeg lítið kynt mjer þetta mál enn sem komið er, en vil ráða háttv. deild til að fara varlega í því að gera viðskiftum í landinu óþægindi með því að hækka burðargjaldið.