21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Jónsson:

Eftir þeim umræðum, sem hjer hafa farið fram, skilst mjer, að hjer muni fara nú sem oftar, að þessi svo kallaði »eldhúsdagur« sje ekkert annað en skrípaleikur. Því að þótt fundið sje að stjórninni og hennar gerðum, þá er það bara í orði, en ekki í lagalegu formi. Jeg get ekki látið hjá líða að minnast á, að mjer finst hæstv. ráðherrum takast mjög misjafnlega að svara fyrir sig. Hæstv. forsætisráðherra tókst það að mínum dómi vel sæmilega, en hinum tveim (B. K. og S. J.) heldur ljelega báðum.

Jeg ætla að leyfa mjer að drepa á orð hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), þar sem hann sagði, að fundið hefði verið að því, að vörur væru fyrst sendar hingað til Reykjavíkur og síðan út um land. Mjer skildist af orðum hans, að hann teldi þetta ódýrara en að senda vörurnar þegar á staðinn, sem þær ættu að fara til. Jeg á bágt með að trúa því um jafnhygginn og færan fjármálamann og hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) er, að hann sjái ekki, hvílík ógnar fjarstæða þetta er. Það liggur svo sem í augum uppi, að það hlýtur að vera kostnaðarauki að senda vörurnar fyrst til Reykjavíkur, skipa þeim upp þar, láta þær standa í pakkhúsi, og skipa þeim svo út aftur, í staðinn fyrir að fara beina leið á viðkomandi staði.

Jeg gleymdi áðan að taka það fram, að eftir þeim heimildum, sem stjórnin hafði, hefir hún ómótmælanlega sýnt slóðaskap í skipakaupum. Það mun vera hægt að sanna það seinna meir, þótt hvorki sje tækifæri nje tími til þess nú í kvöld. Margt fleira mætti nefna, þessari stjórn til lasts, en það er líka margt, sem þinginu hefir farist illa. Til dæmis hefir þessi verðlagsnefnd, sem þingið hefir samþykt, ekki gert neitt annað en stóra ólukku. Þá má enn fremur minna á það, hvernig stjórninni hefir tekist að velja sendimenn til útlanda. Til þess hefir hún valið óhæfa menn, sem alls ekki hafa verið starfinu vaxnir, og er það mjög illa farið, þar sem um svo vandasamt starf er að ræða.

Þegar hæstv. atvinnumálaráðherra talaði áðan, hjó jeg sjerstaklega eftir einni setningu hjá honum. Hann. sagði sem sje, að stjórnin bæri enga ábyrgð á þeim blöðum, sem gefin væru út í Reykjavík, og hefði ekkert blað sjer til styrktar.

Jeg vil nú leyfa mjer að spyrja þann hæstv. ráðh. (S. J.). hvort »Landið« komi hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) ekkert við, eða þá hvort »Tíminn« komi ekki hæstv. atvinnumálaráðherra neitt við. Jeg hygg, að hvorugur hæstv. ráðherra standi sig við að svara þessu neitandi. Jeg trúi því ekki, að þeir sjeu svo nauða einfaldir að neita þessu hjer frammi fyrir öllum þingheimi, því að ekki kemur til mála, að jeg eða nokkur annar leggi trúnað á það, enda er það ekkert; óeðlilegt, þótt landsstjórnin hafi blöð sjer við hönd til vegsauka, verndar og skýringar.

Hæstv. atvinnumálaráðherra mun hafa heyrt til mín nokkur orð hjer í dag, sem leit út fyrir að honum hefði líkað mjög miður. En þegar til kastanna kom, að hann átti að svara þeim, varð hæstv. ráðherra ekki meira úr en svo, að hann gat engu svarað, en ljet sjer nægja að vísa til svars hæstv. forsætisráðherra. Þessi aðferð hæstv. atvinnumálaráðherra er ekki annað en það, sem við allir þekkjum, þegar menn eru í standandi vandræðum og geta engu nýtilegu svarað. En jeg geri ráð fyrir, að þetta þyki gott og blessað, þar sem þessi hæstv., og væntanlega heiðvirði, ráðherra á í hlut. Að svo mæltu á jeg ekki annars kostar en að hafa þetta mína síðustu ræðu í þessu máli, af því að nú er jeg búinn að tala mig »dauðan«, því miður.