18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

164. mál, tekjuskattur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg skal geta þess, að næsta mál á undan var tekið út af dagskrá af því, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) óskaði að vera viðstaddur, er það væri rætt í fyrsta sinni, en er nú fjarverandi; varð að fara burt.

Eins og tekið er fram í nál. er rjettlátasti og sjálfsagðasti tekjuaukinn á þessum tímum hækkun á tekjuskatti, eða, með öðrum orðum, að ná tekjum í landssjóð á þann hátt og þar sem einhver von er um, að hægt sje að borga. Mönnum mun koma saman um, að rjett sje að ná tekjum handa landssjóði hjá þeim, er hafa miklar tekjur, er þeir geti með góðu móti goldið af. Þetta frv. fer nú fram á breytingu á og viðauka við tekjuskattslögin, er nú gilda.

Oss virtist ókleift að ráðast í að umsteypa öllum lögunum frá stofni, og virtist heppilegast að gera bráðabirgðaákvæði, til þess líka að ýta undir það, að brátt væri hafist handa til að koma öllum sköttum í betra horf en nú eru þeir í. Væntum vjer, að hlíta megi við þau ákvæði, sem frv. setur um skatt af eign og atvinnu, er gefur háar tekjur.

Í öðru lagi hefir nefndin viljað tryggja það, að þessi skattur náist, með því að skerpa eftirlit með framtalinu og reyna að láta öll kurl koma til grafar, svo sem kleift yrði.

Það er og viðbót, að tekjuskattur skuli einnig greiddur af sjávarútvegi og landbúnaði. Það þótti einsætt, að þar væri góðra tekna von, að minsta kosti að öðrum þræði, og, eins og ástæður eru nú, virðist ekki hlýða að undanskilja þá atvinnuvegi lengur. Önnur ákvæði frv. miða, sem sagt, að því að gera mögulegt að ná þessum skatti og að framtalið verði ábyggilegt.

Jeg skal geta þess, viðvíkjandi þeim tekjuauka, sem hjer er um að ræða, að hann mundi verða allverulegur, í fyrsta lagi, ef miðað er við þann eignaskatt, sem nú er, 4% af eignatekjum, en eftir frv. hærri af hærri eignatekjum. Jeg skal t. d. benda á, að eftir núgildandi lögum er skattur af 8000 kr. = 320 kr.,

en með þessari viðbót verður skatturinn = 600 —

Af 20000 kr. er eignaskatturinn nú 800 —

en eftir frv. yrði hann 2340 —

Í annan stað yrði tekjuskattur af atvinnu allmiklu hærri en hann er nú.

Af 20000 kr. eru nú greiddar 655 kr. en yrði við breytinguna . . 1045 —

Af 30 þús. kr. atvinnutekjum er skatturinn nú . . . . 1055 —

en eftir þessu frv. yrði hann 2320 —

Tekjuaukinn er þar .... 1265 —

Ef hægt væri að tala um tekjur, er skifta hundruðum þúsunda,

þá eru tekjurnar af 100000 kr. nú 3855 kr.

en yrðu eftir frv. þessu . . 12820 —

og er tekjuaukinn þar . . . 8965 —

Og mætti þannig lengi telja.

Til viðbótar þessu skal jeg taka það fram, að tekjuaukinn á ári af prócentgjaldshækkuninni einni gæti orðið allmikill. Það mundi með sama framtali og árið 1914 og með sömu gjaldendum nema um 12090 kr., en fyrir árið 1916 yrði það miklu meira, ekki síst ef eftirlitið er skerpt. Jeg gæti búist við, að tekjuaukinn yrði um 24 þús. kr. af sömu gjaldendum. Ef við lítum svo á það, að tekjuskattur er lagður með þessu frv. á atvinnutekjur af sjávarútvegi og landbúnaði, þá er ekki mikið í lagt, að þar mundi nást 80 þús. kr., og er þá tekjuaukinn kominn á 2. hundrað þús. kr. hið allra minsta, og mjög varlega áætlað, en reyndar næsta lauslega, því að ógerlegt er að komast hjer að ákveðinni niðurstöðu eða öruggri.

Jeg skal að síðustu geta þess, að fjárhagsnefndin ber þetta frv. fram m. a. í staðinn fyrir að afgreiða frv. um »misærisskatt«, því að það ætlast nefndin ekki til að þurfi að nota, enda ekki svo frá því gengið, að nothæft væri.