14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Björn Kristjánsson:

Jeg sje, að háttv. fjárveitinganefnd leggur enn til að fella styrkinn til Kjósarhrepps til þess að sækja lækni. — Eins og menn muna lagði stjórnin til, að 300 kr. væru veittar á ári í þessu skyni, en það var felt hjer í deildinni, samkvæmt tillögum háttv. fjárveitinganefndar. Nú hefir háttv. Ed. sett aftur inn 200 kr. á ári. Jeg skal leyfa mjer að lesa hjer upp með leyfi hæstv. forseta, kafla úr erindi Kjósarhreppsbúa, þar sem þeir rökstyðja þessa beiðni sína. Kaflinn hljóðar svo:

»Allir, sem hlut áttu að máli undirbúningi laga nr. 24, 13. okt 1899, um skipun læknahjeraða á Íslandi o. fl., töldu þörf á að bæta úr ástandinu, sjerstaklega hvað Kjósarhrepp snerti, þar á meðal þáverandi hjeraðslæknir Reykjavíkur, núverandi landlæknir, enda var með þeim lögum stofnað nýtt læknishjerað, Kjósarhjerað. Mun atfylgi hjeraðslæknis hafa miklu þar um ráðið.«

Svo stóð nefnilega á, að fyrir 1899 heyrði Kjósin undir læknishjerað Reykjavíkur, en það var örðugt og því var þar stofnað nýtt hjerað. Þar var svo læknir í nokkur ár, en svo sótti enginn um hjeraðið á ný, og var það því afnumið 1907 og læknirinn þá fluttur, ekki aftur til Reykjavíkur, heldur til Hafnarfjarðar, en með því var Kjósarhreppsbúum gert enn örðugra fyrir með að sækja lækni en verið hafði fyrir 1899. Hreppurinn á því alveg sjerstaka sanngirniskröfu á að fá þennan styrk, þar sem svo illa hefir verið með hann farið. Þeir eiga líka mjög örðugt með að sækja lækni til Hafnarfjarðar, enda er reyndin sú, að það er ekki gert, nema í lífsnauðsyn, þótt um næma sjúkdóma sje að ræða, eins og taugaveikina, sem kom upp í vor á Möðruvöllum. Jeg geri nú ráð fyrir, að nefndinni sje þetta ekki sjerstakt áhugamál að fella fjárveitinguna, enda er hjer ekki um stóran sparnað að ræða.

Þá vildi háttv. nefnd einnig binda styrkinn til Flensborgarskólans því skilyrði, að bæjarsjóður í Hafnarfirði leggi honum til 800 kr. Sú fjárveiting fór áður breytingalaust gegnum þessa deild, og er því undarlegt, að þetta skuli koma nú fram. Enda er ekki hægt að binda bæjarsjóð Hafnarfjarðar svona óumsamið til að greiða þetta. Skólinn legst því niður, ef þetta verður samþykt, og skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp símskeyti frá sýslumanninum í Hafnarfirði, því til sönnunar. Það hljóðar svo:

»Út af fram kominni tillögu í Nd. um tillag, 800 kr., úr bæjarsjóði Hafnarfjarðar, sem skilyrði fyrir styrk úr landssjóði fyrir Flensborgarskólann, tilkynnist yður, að einkis tillags er að vænta, hvorki úr bæjarsjóði nje sýslusjóði til skólans, sem skilyrði fyrir landssjóðsstyrk. Skólinn nýtur nú ókeypis frá bænum rafljósa, vatns og húsnæðis fyrir leikfimi, sem mun vera 4—500 kr. virði. Kensla í skólanum stendur engu fremur bæjarbúum eða sýslubúum en öðrum landsbúum til boða.«

Svona er skeytið. Bærinn hefir lagt skólanum raflýsingu, gefið eftir vatnsskattinn og lagt skólanum til leikfimihús. Það svarar því, sem aðrar sýslur eru óbeinlínis vanar að leggja til skóla. En þennan skóla sækja nemendur úr öllum sýslum landsins. Jeg vona, að till. verði feld, enda sje jeg ekki, hvaða ástæða væri til að breyta því, sem deildin hefir samþykt við þrjár umræður. — Þetta voru þær till., sem snerta kjördæmi mitt.

Jeg vildi líka minnast á till. nefndarinnar um stórstúkustyrkinn. Vill nefndin aftur færa þann styrk yfir á nafn Sigurðar Eiríkssonar, dannebrogsmanns. Styrkur hans hefir áður verið talinn í 18. gr., og er það svo að skilja, að það sje lífstíðarstyrkur. En ef honum er veittur styrkurinn eftir 16. gr., þá er það svo að skilja, að hann nái að eins til tveggja ára. Er manninum gert rangt til, ef hann er fluttur yfir í þessa grein, því að þá er alls ekki sjálfsagt, að hann haldi styrk sínum áfram. — Mjer þykir það leiðinlegt, að fjelag þetta hefir verið haft að skotspæni hjer í deildinni. Goodtemplarafjelagið er með merkustu fjelögum þessa lands, og ættum við, sem hjer sitjum, miklu fremur að líta upp til þess en að fara svona óvirðulega með það. Það er stofnað á grundvelli kærleikans, eingöngu til að hjálpa öðrum. Fjelagarnir hafa lagt úr eigin vasa svo að hundruðum þús. kr. skiftir. Út yfir tekur till. á þingskj. 951. Er mjög leitt, að slíkar till. skuli geta komið fram. Vona jeg fastlega, að hv. deild láti standa við það, sem hv. Ed. hefir samþykt.

Annars skal jeg ekki nefna aðrar till. en till. á þingskj. 929. Jeg tel hana rjettmæta vegna þess, að búið er að veita fje til annars skóla af sama tægi, sem bæði er minni og miklu yngri. Styrkurinn er að eins 300 kr., og samsvarar það að eins einni smálest af kolum, Vona jeg, að háttv. deild sýni þá sanngirni að samþykkja tillöguna.

Að öðru leyti skal jeg ekki lengja umræðurnar. Vona jeg, að deildin líti með sanngirni á orð mín.