21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

164. mál, tekjuskattur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Eins og áður hefir verið tekið fram ber fjárhagsnefnd þetta frv. fram af þeim sjerstöku ástæðum, sem eru fyrir hendi. Nefndin tók það ráð að forma þetta frv. sem breytingu á og viðauka við núgildandi tekjuskattslög. Breytingarnar ganga í þá átt að hækka skattinn á hærri tekjunum og skerpa ákvæðin um eftirlit skattanefnda með framtali á tekjum manna. Þá hefir nefndin bætt við tveimur nýjum greinum, sem báðar lúta að því sama, að skerpa eftirlitið. Til þess að ná öruggu framtali verður að skylda stjórnendur banka og sparisjóða ótvírætt til að gefa upplýsingar. Líkt ákvæði er í 12. gr. laganna, þar sem stofnanir og fjelög eru skylduð til að gefa þær upplýsingar um tekjur manna og eignir, sem kleift er. Það getur leikið vafi á því, hvort bankar og sparisjóðir falli undir ákvæði 12. gr., eftir því, sem lögin hafa verið framkvæmd, en á því má enginn vafi leika, því að sjálfsagt er að ná skatti af innstæðufje. Það er ekki sýnilegt, að starf skattanefnda aukist að mun. Nefndirnar eru til, og þó að vald þeirra sje gert dálítið meira en það er, þá er það ekki úr vegi, og líklegt, að þeim verði þá meira ágengt. Yfirskattanefndir hafa í raun og veru að eins úrskurðarvald um kærumál eftir núgildandi lögum, og þykir ekki annað hlýða en að þær hafi líka örugt eftirlitsvald. Þannig er það og alstaðar þar, sem skattalöggjöfin er komin í sæmilegt horf.

Þá kemur að athugasemdum hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.). Hann taldi, að hjá bændum og smærri útvegsmönnum væru tekjurnar ekki svo miklar, að ástæða væri til að leggja skatt á þær. Það getur vel verið, að ekki verði um háan skatt að ræða. En ókleift er að undanskilja nokkra menn, ef atvinnugreinin er tekin með á annað borð. Og það mun varla tjóa að sleppa landbúnaði og sjávarútvegi alveg. Frv. gerir líka ráð fyrir að leggja engan skatt á tekjur, sem eru minni en 1000 kr., og er það í samræmi við gildandi tekjuskattslög. Og þótt maður geri ráð fyrir góðu framtali, þá eru það ekki nema stærstu bændur, sem hafa svo miklar tekjur, þegar þess er gætt, að skattur er að eins goldinn af beinum tekjum. En það geta ekki talist beinar tekjur, sem lagt er til heimilis og eytt af stofni, svo sem frálag á fjenaði að haustinu. Það er mikið rjett, að margir eiga erfitt með að gera upp tekjur sínar og halda reikninga.

En hjá því verður ekki komist. Menn verða að læra það, því að alla borgara verður að taka með undir meðferð skattamálanna. Það er engin hætta fyrir þá, sem vilja landbúnaðinum vel (og á meðal þeirra tel jeg mig) að greiða atkv. eitt með þessu frv. Enginn þarf að óttast, að landbændur verði sognir út. Ekki heldur smærri útgerðarmennirnir. Skattaþunginn kemur aðallega niður á stórgróðamönnunum, ekki síst við sjóinn, og það er eins og á að vera.

Hitt atriðið er það, hvort hækka eigi lágmark skattskyldra tekna. Nefndinni fanst ekki taka því. Hjer verður að gæta þess, hvort sumir menn verði ver úti en aðrir. Jeg held ekki, að það verði til baga. Þeir, sem lágt eru launaðir t. d., verða ekki ver settir heldur en eftir núgildandi lögum. »Skalinn« (eða skattmælikvarðinn) er sami upp að 7000 kr. tekjum. Þess vegna er ekki heldur hætt við, að bændur eða útvegsmenn minni háttar verði hart úti. Skatturinn er svo lítill af lágum tekjum, að lítið munar um hann. En það er ekki hægt að vinsa úr þá, sem lægri tekjurnar hafa, ef þeir hafa nokkrar að mun, heldur verður að taka alla með, en láta skattinn leggjast sem jafnast á. Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) benti líka á það, að verðlagsskrá, eða rjettara sagt alinin, hefði hækkað mikið, svo að bændur borguðu nú stríðsskatt sinn í hækkuðum lausafjárskatti. Jeg skal játa, að þetta er að nokkru leyti rjett athugað, enda hefir nefndin athugað þetta og gerir tillögur um jöfnuð milli atvinnuveganna í öðru frv., sem ekki er til umræðu nú, sem sje frv. til laga um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Á það að koma í stað verðhækkunartollsins og vega upp á móti þeirri hækkun, sem orðin er ósjálfrátt á lausafjárskattinum. Þegar það er fengið, þá verður landbúnaðurinn ekki ver settur en aðrir atvinnuvegir. — Þó að ýmislegt sje ekki sem þægilegast í meðförum af þesskonar ákvæðum, þá er það yfirleitt ekki verra en nú er. Nefndin telur þetta ekki nema bráðabirgðaákvæði, en að miklu meiru þurfi að breyta, áður en að löggjöfin um þessi efni er komin í æskilegt horf. Um tekjulágmark það, sem skatt skal greiða af, gæti það að sjálfsögðu hugsast, að tiltækilegt þætti að hækka það upp í 1500 kr., eða jafnvel 2000 kr., og er sjálfsagt að taka það til íhugunar á milli umræðna.

Þá kem jeg að athugasemdum hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Mjer þótti vænt um undirtektir hans við 1. umr. þessa máls, og bjóst jeg við, að þar við mundi sitja. Jeg gekk út frá því sem gefnu, að hann, sem fjármálaráðherra, mundi láta sjer ant um fjárhag landsins og verða feginn öllum tilraunum til að bæta hann. Nú kemur hann með þá (ekki óverulegu) athugasemd, að 3. og 4. gr. frv. sjeu ótækar. En ef þær væru feldar burt, þá væri frv. þýðingarlaust að miklu leyti. Jeg hefi gert grein fyrir því áður, að ekki muni vera hægt að undanskilja með öllu bændur og sjávarútvegsmenn skattgjaldi. Nefndin mun því ekki geta gengið inn á að útiloka þá. Hæstv. fjárnálaráðherra (B. K.) hjelt því fram, að þeir, sem græða nokkuð verulega á sjávarútvegi, sjeu skattskyldir eftir núgildandi tekjuskattslögum. Þetta er nú ekki alveg rjett. Í 5. gr. laganna stendur: »Sá, sem fæst við landbúnað eða hefir sjávarútveg, skal greiða skatt þennan af tekjum þeim, sem renna beinlínis til hans af bjargræðisvegum þessum«. Það er því ekki nema lítill hluti af tekjum þessara manna, sem kemur til skattaálögu. Eftir frv. er hægt að ná til alls, sem skatt skal greiða af, ef framtalið er gott. Hvort hægt er að reiða sig á, að það sje örugt, er annað mál, En engin ástæða er til að ætla, að misbrestir verði fremur á því eftir en áður. Og þótt svo mætti álíta, að sjávarútvegsmenn væru þegar skattskyldir eftir lögunum, eins og þau eru nú — sem nú ekki er — þá er engu spilt, þótt ákvæði þessu sje bætt inn. Mjer finst vera mótsögn í þessu hjá hæstv. fjármálaráðherra (B. K.). Ef þetta ákvæði væri felt burt, þá mætti eins vel fella frv.

Þá eru athugasemdir hans (B. K.) við 4. gr. Jeg hefi tekið það fram áður, að vafasamt þykir, hvort ákvæði 12. gr. tekjuskattslaganna nái til banka og sparisjóða. 4. gr. frv. má því skoða sem skýring á þeim ákvæðum. Það er engin meining í að láta þá sleppa hjá skatti, sem eiga miklar eignir í sjóðum. Og það virðist síður en svo ástæða til að gera mikla rellu út af þessu. Það eru 4%, sem greiða á af 1000 kr. tekjum. Þeir, sem t. d. eiga 25000 kr. í sparisjóði, fá 1000 kr. tekjur af þeirri eign í vaxtagreiðslu og eiga að greiða 40 kr. skatt. Sá, sem á 50000 kr. í sjóði, fær 2000 kr. tekjur og geldur 90 kr. skatt. Getur þetta drepið nokkurn mann? Eða er ástæða til að ætla, að menn fari að flýja land fyrir þessar sakir? Það er ekki til annars en að ala upp í mönnum ósóma að halda slíku fram. Jeg er viss um, að það er ekki nema hugboð hjá mönnum, sem halda, að til sjeu svona lítilsigldar sálir. Og ekki er í annað hús að venda með að fá upplýsingar um innieignirnar en til bankanna sjálfra. Menn eru vanir því hjer að vitna til Danmerkur með svo margt, og má gera ráð fyrir, að hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) haldi, að menn hlaupi þangað með fje sitt. En hvað vinna þeir við það? Þar er þetta svona; bankar og sparisjóðir eru skyldir til að gefa skattanefndum allar upplýsingar. Og svo er það alstaðar þar, sem skattalöggjöfin er komin í viðunanlegt horf. Jeg sje ekki heldur, að það geti orðið neitt hættulegt fyrir innieigendur, þótt ákvæðið verði samþ. Fyrst og fremst er að öllum jafnaði ekkert hættulegt, þótt eitthvað vitnist um það, sem menn eiga, og í öðru lagi er nokkur trygging fyrir því, að svo þurfi ekki að verða, þótt skattanefndir fái nauðsynlegar upplýsingar. Nefndarmönnum er skipað að halda öllu leyndu og hótað refsingu og sektum, ef út af er breytt, eins og ljóst er af frv.

Jeg hefi litla trú á því að hækka sektirnar, þótt menn vildu telja það ráðlegra; það er æra mannanna, sem mest er komið undir. En mundu nú þeir menn, sem hræddir eru við, að uppvíst verði um innieignir þeirra, vera tryggir með því fyrirkomulagi sem er? Það er trúlegt, að einhverjir viti um sparisjóðseignir þeirra, að minsta kosti þeirra nánustu vandamenn, og gæti þetta því borist þann veg. Þar að auki eru fleiri menn í bönkunum en bankastjórarnir, en þótt þeir einir vissu þetta, þá er nú svo, eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) komst að orði, að þjóð veit er þrír vita, og þeim kann að geta brotið orð um það. Þetta hjal um, að fjenu sje þá betur borgið nú, er alveg ástæðulaust. Nei! Það skyldi þá helst vera það, að innieigendur væru svo sinkir, að þeir tímdu ekki að greiða þennan skatt, og því sje úlfaþyturinn, en jeg býst við, að það sje nú upp og niður, eins og í öðrum efnum, og að þessir menn, eins og aðrir, muni sætta sig við að greiða eitthvað til þarfa þjóðfjelagsins, þar á meðal skatt af eignum sínum.

Jeg held þá ekki, að þörf sje að fjölyrða meir um þetta mál. Einmitt þessum ákvæðum í 4. gr. frv. má ekki sleppa; það eru þau, sem gera frv. ekki hvað síst aðgengilegt.