14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Frsm. fjárveitingan. (Bjarni Jónsson):

Háttv. 1. þm. G.-K. (B.K.) hefir sagt málavexti um 1. lið í brtt. 906. Skal jeg ekki orðlengja það frekar.

Orðabókarstyrkinn hefir háttv. Ed. illu heilli fært niður um helming. Skil jeg ekki, hvað deildinni hefir gengið til. 8. brtt. á þgskj. 906 er um að hækka hann aftur. Nefndin ætlaði 6 þús. kr. til þessa starfs í því skyni, að nú yrði samin vísindaleg orðabók. Er það gert eftir aðaltillögu dr. Björns frá Viðfirði, en honum ætlar stjórnin að fá í hendur forustuna fyrir orðabókarstarfinu. Fylgja þessu meðmæli próf. dr. Björns M. Ólsens. Nú á að snúa þessu verki svo, að það verði til gagns og sóma. Þingið getur ekki haldið áfram að veita uppihaldsstyrk einstökum mönnum sem orðabókarstyrk. Ef jeg vissi, að deildin myndi fella brtt, nefndarinnar, þá hefði jeg talið rjettast að bera fram varatill. um að fella styrkinn alveg burt. En jeg ljet það farast fyrir af þeirri ástæðu einni, að jeg hafði eigi brjóst á því, þar sem jeg veit, að það yrði til þess að drepa einn góðan mann og svelta annan. En jeg vona, að háttv. deildarmenn samþykki till. nefndarinnar. — Ekki skal jeg gera þá kröfu, að þeir fari eingöngu að orðum mínum um þetta efni. En þeir geta verið ugglausir um, að það sje rjett, sem próf. Björn M. Ólsen segir um íslensk fræði. Í sömu átt fara og ummæli dr. Björns frá Viðfirði, og enn ummæli Jóhannesar Lynge á Kvennabrekku, sem mun hafa einna best vit á þessum hlutum af núlifandi Íslendingum. Enda vil jeg geta þess, að Jón heitinn Ólafsson sagði um Jóhannes, að hann hefði meira vit í litla fingrinum á íslenskri málfræði en margur sprenglærður kandidat í kollinum. Ef sami ótti, sem vart varð við í Ed., skyldi eiga sjer stað hjá einhverjum þm. þessarar deildar, að styrksins eigi að njóta einhverjir vargar, sem ekki geta unnið saman, skal jeg skýra lauslega frá, hvernig verki þessu er háttað. Við skulum hugsa okkur, að orðabókarhöfundarnir þurfi að orðtaka bækur. Við skulum segja, að annar orðtaki Alþingisbækurnar og Alþingistíðindin frá upphafi, en hinn Diplomatarium, að undanteknu 1. bindinu, sem þegar er orðtekið. Það sjer hver maður, hvaða tækifæri mönnum við slíkan starfa er gefið til að sitja og hnakkrífast. Annars má þess geta, að þeir þrír menn, sem sótt hafa um orðabókarstörf, eru slíkir geðprýðismenn, að enginn veit til, að þeim hafi nokkum tíma sinnast. Jeg skal ekki fjölyrða frekar um orðabókina. En reglulegt sómaverk væri, ef þingið snýst svo við þessu verki, að það verði Íslendingum nú og á ókomum tímum til mikils gagns.

Þá er brtt. 906, 10. Háttv. Ed. hefir gert þá breytingu, að Helgi Jónsson fái 1800 kr. bæði árin, en 1200 kr. viðbót fyrra árið til þörungarannsókna. Mjer samir ekki að fara í kapp út af þessum manni, þar sem hann er bróðir minn.

Öðrum doktor eru ætlaðar 2500 kr. á ári. 500 kr., sem Helga bróður mínum voru ætlaðar fram yfir það, voru ætlaðar honum vegna þeirra bagga, sem deildin batt honum um þörungarannsóknir. Að öðru leyti má heita líkt um þessa nafna.

Í nál. Ed. er það talið sennilegt, að rannsókninni verði lokið á einu ári. Það lítur út fyrir, að sá misskilningur hafi læðst inn hjá deildinni, að hjer væri eingöngu um hallærisráðstöfun að ræða. En svo er ekki. Væri það harla fávíslegt að halda, að vísindalegri rannsókn á þörungum yrði lokið á einu ári. Leggur nefndin til, að Helgi Jónsson fái líka 1200 kr. til þörungarannsóknarinnar síðara árið. Þá hefði hann bæði árin 3000 kr. Býst jeg við, að háttv. deild muni fallast á þetta. Ef deildin skilur við þetta mál eins og háttv. Ed. hefir gert, þá situr Helgi bróðir minn með einar 1800 kr. síðara árið, en nafna hans eru ætlaðar 2500 kr. bæði árin. Er þetta ekki sagt af neinni óvináttu til dr. Helga Pjeturssonar, heldur að eins til samanburðar.

Þá er brtt. 906, 12, námsstyrkur til Ingunnar Magnúsdóttur. Það er nýr liður. Þessi stúlka er alin upp hjer í Reykjavík. Eru þær margar systurnar. Þær eru einstaklega háttprúðar og hafa verið öllum geðfeldar, sem þeim hafa kynst. Er ein þeirra alin upp af próf. Guðm. Magnússyni. — Stúlka þessi varð fljótt vel að sjer í öðrum málum. Nú dvelur hún í útlöndum og ætlar sjer að verða skjalþýðari. Undanfarið hefir hún jafnframt námi sínu haft á hendi skrifstofustörf. En nú í vor ætlar hún að taka próf, og hefir því ekki tíma til að vinna fyrir sjer í vetur, eins og áður. Fjárveitinganefnd hefir ekki viljað synja um þennan styrk þetta eina ár. Jeg býst við, að eins verði um háttv. deild.

13. liður í brtt. 906 er um stórstúkustyrkinn. Nefndin var á því máli, að þinginu beri ekki að styrkja þessa stofnun. Hefir hún því tekið upp þá till. sína, að fjeð gangi til Sigurðar regluboða Eiríkssonar. En þar sem heyrst hefir, að hann muni ófús að taka við fjenu, og vilji heldur vera áfram á sama stað í fjárlögunum, sem hann hefir verið á, þá er nefndin ekki viss um, að till. sín verði samþ. Kom hún því fram með varatill., sem hún telur rjettmæta. Er engin stofnun betur að styrknum komin en Bræðrasjóður Mentaskólans. Nú er hann orðinn svo stór, að hann getur að töluverðum mun hjálpað fátækum nemendum. Það ætti vel við, að þingið veitti nú Bræðrasjóði þennan styrk, þar sem það hefir altaf verið að klípa utan úr »ölmusunni«, — öll eru heitin virðuleg — en svo er námsstyrkur mentaskólasveina og meyja nefndur. Gott væri, ef þessu væri haldið áfram í nokkur ár, helst þangað til Bræðrasjóður væri orðinn svo stór, að nemendurnir þyrftu ekki lengur að knýja á dyr þingsins til að afla sjer námsstyrks. Það, sem tilfinnanlegast vantar í þessu landi, eru styrktarsjóðir fyrir unga menn. Í öllum öðrum löndum er mikið til af slíkum sjóðum. Við Háskólann hjer eru að eins til tveir. Var annar stofnaður þegar Geir heitinn Einarsson varð úti, en hinn hefir Benedikt kaupmaður Þórarinsson gefið. Jeg býst því við, að hver háttv. þm. muni greiða brtt. þessari atkv., sá er ekki vill setja Sigurð regluboða Eiríksson í stað stórstúkunnar.

Í 18. gr. er bætt inn handa prestsekkjunni Kirstínu Pjetursdóttur, sem ekki hafði komið málaleitun frá og nefndin ekki haft í huga, er hún var að fást við fjárlögin og samdi till. sínar. En ekki verður sagt, að ekkja þessi eigi minna tilkall til styrks en aðrar ekkjur, sem styrks njóta eftir 18. gr. Síra Lárus Halldórsson, maður hennar, var þjóðkunnur prestur og eina tíð alþm. Treysti jeg því, að háttv. þingdm. muni fúslega samþ. þessa till., eins og aðrar slíkar till.

Þá er hjer till. um, að skólinn á Hvammstanga sje látinn falla úr tölu þeirra unglingaskóla, sem sjerstyrks eiga að njóta. En jafnframt er hjer brtt. frá mjer um að gera unglingaskólanum í Hjarðarholti ekki lægra undir höfði en hinum skólunum. Hefir till. um þetta verið áður fram borin, en fjell þá með jöfnum atkvæðum. Nú vona jeg, að háttv. deild lofi Hvammstangaskólanum að standa á þeim stað, sem háttv. Ed. hefir sett hann, en bæti Hjarðarholtsskólanum við. Það er svo líkt á komið með þessum skólum, að ekki er annað hæfilegt en að eitt gangi yfir þá báða.

Á þgskj. 929 er brtt. frá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) um 300 kr. styrk á ári til kvöldskólans í Bergstaðastræti. Meiri hluti nefndarinnar er á móti styrkveitingu þessari.

Þá eru nokkrar brtt. á þgskj. 915, sem jeg vona, að háttv. flutnm. taki aftur; að öðrum kosti verð jeg síðar að segja nokkur orð um þær, sjerstaklega hina síðustu.

Brtt. á þgskj. 911 er ekki annað en orðabreyting, er nefndin lætur hlutlausa. Það þarf alls ekki að tortryggja fræðimann þann, er þar á hlut að máli, um vinnubrögð hans, og að því leyti er till. fullkomlega rjettmæt.

Meiri hluti nefndarinnar var á móti till. á þgskj. 925. Hún hafði það á móti henni, að ekki væri fært að leggja út í húsbyggingu á Hallormsstað í svona árferði, þegar alt byggingarefni er svo geipidýrt.

Þá kem jeg að till. háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) um að færa fjárveitinguna til sendimanns Fiskifjelagsins úr 12000 kr. niður í 8000 kr. á ári. Nefndinni er ekki kunnugt um, að nokkurt skipafjelag, útlent eða innlent, hafi heitið því að flytja mann þennan ókeypis; ekki veit hún heldur þess vonir, að honum muni verða veitt gefins húsnæði eða fæði, þar sem hann dvelur. Nú mun það varla teljast sæmilegt, að sendimaður lands vors þurfi að lifa á bónbjörgum eða liggja úti. Þá munu þeir, sem athuga málið, sjá, að nú í þessari dýrtíð er upphæð sú, sem honum er ætluð í frv., síst ofhá; vona jeg því, að háttv. þm. (E. J.) taki till. sína aftur.

Brtt. á þgskj. 919, um 500 kr. viðurkenningu handa smáskamtalækni Sigurði Jónssyni frá Litla-Lambhaga, er meiri hluti nefndarinnar mótfallinn; þó hefi jeg ekki ástæðu til að mótmæla henni, því að jeg þekki ekki þennan mann, og vil jeg fyrst heyra, hvað flutnm. hennar, háttv. þm. Borgf. (P. O.) hefir um hana að segja. En mig furðar á því, að háttv. þm. (P. O.) vill fella burt annan lið, sem háttv. Ed. setti inn, ef till. þessi fellur, því að hvorugur maðurinn er betur farinn, þótt báðir falli. Við skulum sem snöggvast hugsa okkur, hvernig færi, ef þessari reglu háttv. þm. (P. O.) væri alment fylgt í fjárlögunum. Setjum svo, að einhver háttv. þm. vildi koma inn í fjárlögin fjárveitingu til vegarspotta, og hefði í hótunum, að ef hann fengi hann ekki, þá skyldi hann stuðla að því, að fjárveiting til annara vegarspotta yrði líka feld. Það mundu ekki þykja hyggnir löggjafar nje sanngjarnir, sem svo færu að ráði sínu; og jeg trúi því ekki fyr en jeg reyni, að háttv. þm. Borgf. (P. O.) sje alvara með að vilja fella 34. liðinn í 16. gr., ef till. hans kemst eigi fram.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) ber fram tillögu um, að niður sje feldur 40. liður í 16. gr.: »Til hafnarsjóðs Vestmannaeyja, endurgreiðsla á útlögðum kostnaði við rannsókn á hafnarstæði og undirbúningi hafnargerðar«. Svo stendur hjer á, að á þingi 1911 voru veittar 4000 kr. til að rannsaka hafnarstæði í Vestmannaeyjum, og mun þá hafa verið ætlun manna, að fje þetta myndi nægja til rannsóknarinnar, en reyndin varð sú, að hún kostaði rúmlega 7300 kr., enda var rannsóknin yfirgripsmeiri en menn hugðu í fyrstu að hún mundi þurfa að vera.

Þingið 1911 ljet svo um mælt, að landið mundi borga allan rannsóknarkostnaðinn. Hingað til hefir það verið talið heiðarlegt að halda orð sín, og sumir hafa verið svo djarfir að segja, að löggjafarþing ætti að vera svo vandað að virðingu sinni, að það vildi halda orð sín, eins og einstakir menn, og sumir svo heimtufrekir að heimta beinlínis slíkt. Það er því sjálfsagður hlutur að fella tillögu þessa, og því skyldara er landssjóði að greiða fje þetta, þar sem Eyjarnar eru eign landsins, og það hin besta þeirra, og sú, sem vonandi verður síðast seld. Jeg vona, að háttv. þm. (E. J.) hafi ekki aðra gleði af till. sinni en að hann, sem sparnaðarmaður, hafi ófyrirsynju eytt tíma þingsins og aukið kostnað. Það skyldi vera, að hann hefði borið till. fram af tómum brjóstgæðum við prentarana og til að auka þeim atvinnu.

Þá er hjer brtt. frá hæstv. fjármálaráðherra (S. E.); hann hefir að vísu eigi talað um hana enn; þó mun jeg fara um hana nokkrum orðum.

Fjárveitinganefnd samþ. till. þessa að öllu; og skal jeg benda á, að þessi maður hefir unnið lengi að þýðingarmiklu starfi í þjónustu landsins og fengið órífleg laun fyrir. Hann hefir unnið minstan hluta starfstíma síns með eftirlaunarjetti, og mundu eftirlaun hans, hin löghelguðu, því verða lítil, er hann ljeti af embætti. Mest styður það þó till. þessa, að maður þessi, Indriði skrifstofustjóri Einarsson, hefir með höndum ýms ritverk, sem hann vonar að geta unnið að og lokið við, ef hann fær næði til þess. Eitt af þessum ritum, og það sem er líklegt að verði höfuðritverk hans, er »Dansinn í Hruna«. Lítil von er, að hann gæti lokið þessum verkum í hjáverkum, við hliðina á erfiðum embættisstörfum. Það er því til gagns fyrir landið og sóma fyrir þingið, að till. sje samþ.

Indriða Einarsson má telja forgöngumann leikskáldskapar hjer á landi; og væri gott til þess að vita, að hann fengi nú á efri árum næði til að fullgera verk þau, sem hann hefir geymt í huga frá æskuárum, því að þótt hugsanafrjósemin minki, er aldur færist yfir menn, og hugmyndirnar sjeu ekki eins áleitnar eins og á unga aldri, þá eiga rosknir menn auðveldara með að færa hugmyndir æskuáranna í fagran og sæmilegan búning. Jeg þarf ekki að skýra nánar slíka hluti; slíkt má sjá í öllum bókmentasögum. Skal jeg að eins nefna til sönnunar þessu stórskáldið Goethe; hans bestu verk eru frá fullorðinsárunum, en smíðuð úr æskuhugmyndum.

Mun jeg svo ekki fara fleirum orðum að sinni um málið, en vona, að háttv. deild fylgi till. nefndarinnar í sem flestu, einkum þó í höfuðatriðum öllum. Á örsmáa liði leggur hún minni áherslu. En er hún á að fara að gera út um þær tillögurnar, sem við er bundinn heiður þingsins og gagn þjóðar í nútíð og framtíð, þá vona jeg, að það komi í ljós, að í þessari deild sitji sannir og góðir Íslendingar.