21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

164. mál, tekjuskattur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður, með því að ekkert hefir bæst við af nýjum rökum frá andmælendum frv., enda skaut mjer heldur skelk í bringu við orð hv. 2. þm. Rang. (E. J.) til mín, sem hann raunar og beindi til annara, mjer fremri að mannvirðingum, hæstv. forseta og ráðherra!

Nú telur hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) 4. gr. frv. ekki vel framkvæmanlega, af því að fjöldi sparisjóðsbóka sje ekki á nafn, heldur á númer. Mjer er nú kunnugt um það, að fjöldi manna lætur setja nafn á sparisjóðsbækur sínar og eins ávísanaupphæðir, en þótt svo sje, að að eins sjeu númer, þá getur bankastjórnin oft eða allajafna vitað um eigendurna, en viti hún ekki um þá, þá er hún ekki bundin við annað en fyrirmæli 12. gr., sem sje að gefa skattanefndunum skýrslur um það, sem hún veit. Þegar hún getur ekki gefið skýrslur, þá nær það ekki lengra. Auðvitað getur það líka verið, að menn gefi upp þessar eignir sjálfkrafa.

Jeg gleymdi að leiðrjetta þá villu í fyrri ræðu hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), að þeir, sem ekki telja fram, yrðu dregnir fyrir dómara. Hjer er ekki gert ráð fyrir því, heldur því, að grunsamir framteljendur staðfesti framtal sitt með eiði. Þetta skiftir raunar litlu.

En um útgerðarmenn er það að segja, að samkvæmt tekjuskattslögunum 1877 er það ómótmælanlegt, að þeir eru ekki skattskyldir. Annað mál er það, að þeir, sem eiga hluti í fjelagi, greiða ef til vill einhvern skatt þar af, sem af annari eign.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) sagði, að stjórnin mundi þurfa að setja reglur um framtalið. Jeg held, að það komi nú varla til, en ekki getur það spilt. Jeg skal geta þess, að nefndin ætlast til þess, að ef frv. nær fram að ganga, verði þegar fengin staðfesting konungs símleiðis og síðan lögin send fyrir haustið til skattanefndanna, og væri þá vel til fallið, að stjórnarráðið sendi um leið leiðbeining fyrir þær og töflu yfir skattgjaldið, sem hagstofan mundi sjálfsagt verða fljót til að gera, ef henni yrði falið. Það er í rauninni mjög vandalítið.