21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

164. mál, tekjuskattur

Fjármálaráðherra (B K.):

Hv. frsm (G. Sv.) viðurkennir nú, að bækurnar sjeu margar að eins hljóðandi upp á nr. og að nægilegt sje, að bankastjórnin gefi að eins skýrslur um þá, sem hún veit um. En jeg vil þá leyfa mjer að spyrja hinn háttv. þm. (G. Sv.): Hve lengi heldur hann, að þess verði að bíða, að allar bækurnar verði orðnar nafnlausar, allar komnar upp á nr.? Þegar almenningi er orðið kunnugt um, að skattur er lagður á sparisjóðsfje á bókum með nafni, þá má gera ráð fyrir því, að eftir eitt ár verði allar bækur orðnar nafnlausar.